Hádegisfréttir: Flugfreyjur setjast að samningaborði

24.06.2020 - 12:09
Nú er að hefjast fundur samninganefnda Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hjá ríkissáttasemjara. Nefndirnar sátu lengi við í gær og fundi þeirra lauk ekki fyrr en laust fyrir klukkan tvö í nótt. Nokkuð hefur þokast í samkomulagsátt. 

Evrópusambandið íhugar að loka á bandaríska ferðamenn þegar landamærin verða opnuð um mánaðamótin. Daglegum tilfellum af COVID-19 fer fjölgandi í 26  af ríkjum landsins.

Ívilnanir vegna kaupa á rafbílum, samkvæmt uppfærðri aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem kynnt var í gær, ná ekki til þeirra tekjulægri og eru ekki líklegar til að draga nægjanlega úr losun til að Íslendingar geti staðið við Parísarsáttmálann, segir framkvæmdastjóri Landverndar. 

Þó að ekki sé útlit fyrir stór framhlaup af völdum jarðskjálfta á Norðurlandi er viðbúið að það hrynji úr fjöllum og klettabeltum verði fleiri stórir jarðskálftar. Talið er æskilegt að fara að þekktum skriðusvæðum eftir að hrinan er gengin yfir og athuga hvort land hafi hreyfst úr stað.

Jarðskjálftahrina við mynni Eyjafjarðar heldur áfram. Dró nokkuð úr virkni í nótt en þar mældust um 400 skjálftar frá miðnætti og voru flestir undir þremur að stærð. Þó varð skjálfti sem mældist fjórir að stærð rétt fyrir sjö í morgun, fimm þúsund skjálftar hafa orðið frá því hrinan hófst á föstudag.

Aldrei hafa fleiri sótt um nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðsókn í grunnám hefur meira en tvöfaldast frá því í fyrra. Aukning er langmest í BS-námi í landslagsarkitektúr 

Í haust fjölgar opinberum starfsmönnum á Sauðárkróki um átta stöðgildi. Starfsmönnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður fjölgað og fjögur störf verða færð frá Reykjavík.

Röð mistaka hjá áhöfn og flugumferðarstjórum varð til þess að farþegavél fórst í lendingu í Pakistan í síðasta mánuði. 97 manns fórust í slysinu.

Í dag hefst mikil minningarhátíð í Moskvu því 75 ár eru frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Vladimir Pútín forseti Rússlands á veg og vanda að hátíðahöldunum sem fara fram í skugga COVID-19 og þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildar stjórnarskrárbreytingar.

Breiðablik sigraði KR í gærkvöld og er á toppi úrvalsdeildar kvenna í fótbolta. Þór/KA og Valur mætast í deildinni í kvöld og sigurliðið jafnar Breiðablik á toppnum að stigum.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi