Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fagna flutningi starfa til Sauðárkróks

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Frá og með október verður opinberum stöðugildum fjölgað um átta á Sauðárkróki. Starfsmönnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður fjölgað ásamt því að fjögur störf verða færð frá Reykjavík.

Í lok maí tilkynnti Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra aðgerðir til að efla umgjörð brunamála og brunavarna á Íslandi. Liður í því er að fjölga starfsmönnum sem sinna brunavörnum. Störfin verða á starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Sauðárkróki og opinberum störfum á landsbyggðinni þannig fjölgað.  

Starfsmenn færðir í önnur störf

Fjögur stöðugildanna færast frá Reykjavík og hafa starfsmennirnir tilkynnt að þeir muni ekki flytja á Sauðárkrók. Hermann Jónasson forstjóri stofnunarinnar segir að ferlið sé í vinnslu en að minnsta kosti þrír starfsmenn verði færðir í önnur störf innan mannvirkjasviðs í Reykjavík. Í heildina bætist átta störf við þau 20 sem þegar eru hjá stofnuninni á Króknum þann 1. október.

Gagnrýnir neikvæðni vegna flutninganna

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar störfunum, þau séu í anda stefnu ríkisstjórnarinnar og skipti sveitarfélagið miklu máli enda krefjist opinber störf yfirleitt menntunar. „Við erum að fá þarna menntað fólk heim, sem er kannski ekkert sjálfgefið í mörgum sveitarfélögum að við getum fengið, það er takmarkað hvað við höfum að bjóða svoleiðis fólki“ segir Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs og hann gagnrýnir neikvæðni vegna flutninganna.

„Þetta er dálítið sérstök umræða, að um leið og störfin eru flutt út á land að þá sjá menn því allt til foráttu og reyna að finna einhverjar neikvæðar hliðar á því sem er bara alls ekki. En á sama tíma og störfin leka hér í burtu í tugatali frá landsbyggðinni yfir til höfuðborgarinnar þá einhvern veginn talar enginn um það“ segir hann. 

Telur húsnæðisskort ekki vera vandamál

Húsnæðisskortur hefur verið vandamál á Sauðárkróki. Stefán segir mikið af húsum í byggingu núna og að íbúðum gæti fjölgað um allt að hundrað á næstu árum þannig þau telji sig vel í stakk búin til þess að taka á móti því fólki sem vilji flytja á Sauðárkrók og í Skagafjörð.

Í nýrri fundargerð byggðarráðs hvetur það stjórnvöld til áframhaldandi góðra verka er kemur að fjölgun opinberra starfa hjá landsbyggðarsveitarfélögum og skorar á önnur sveitarfélög að taka undir áskorun byggðarráðs um eflingu og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.