Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Færeysk glæpasería í burðarliðnum

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Færeyskir bátar elta grindhvali. Mynd: Wikimedia Commons

Færeysk glæpasería í burðarliðnum

24.06.2020 - 02:19

Höfundar

Nú ætla Færeyingar að hasla sér völl í gerð glæpaþátta. Þáttaröðin TROM sem byggir á bókum Jógvans Isaksen um rannsóknarblaðamanninn Hannis Martinsson verður dýrasta kvikmyndaverkefni sem Færeyingar hafa lagt í hingað til.

Í þáttunum rannsakar Martinsson andlát dýraverndunarsinna sem virðist hafa verið myrtur á meðan grindhvaladrápi stendur í eyjunum.

Eins og í öllum góðum glæpasögum getur nánast hver sem er verið sekur - en líklega kemst rannsóknarblaðamaðurinn að hinu sanna í lokin.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við þáttagerðina nemi um 37 milljónum danskra króna eða um 800 milljónum íslenskra.

Framleiðendum hefur þegar tekist að fjármagna verkið að mestum hluta en landsstjórnin þarf að leggja fram sem nemur um 85 milljónum íslenskra króna.

Þá væri ekkert að vanbúnaði að hefja tökur en áhugi landstjórnarinnar á verkefninu virðist takmarkaður.

Aksel V. Johannesen leiðtogi Jafnaðarflokksins og fyrrverandi lögmaður hefur gagnrýnt núverandi stjórnvöld fyrir andvaraleysi og segir þau ekki sjá möguleikana í verkefninu.

Johannesen segir sjónvarpsþáttagerðina vera mikla og góða fjárfestingu til framtíðar fyrir færeyskt samfélag. Hann vonast þó til að lending náist í málinu áður en lögþingið fer í sumarfrí.

Tengdar fréttir

Erlent

Mörg hundruð þúsund heimsóttu Færeyjar