Emmsjé Gauti er einn sá reyndasti í bransanum og hefur hann á ferlinum gefið út sex plötur og nú er sú sjöunda á leiðinni. Hún nefnist Bleikt ský og kemur út á næstu dögum. Hann gerir þó lítið úr afrekum í plötuframleiðslu. Yngri kynslóðir rappara dæli út lögum og breiðskífum án þess að það þyki tiltökumál. „Standardinn í dag er að gefa út þrjár plötur á ári.
„Búinn með tíu þúsund klukkutíma en samt í meðallagi“
Mér finnst ég mjög duglegur, en fólk gæti sagt: Hann er náttúrulega bara búinn að gefa út sex plötur á þessum átján árum sem hann hefur verið að rappa.“ Hann segist jafnvel stundum ljúga því að hann hafi byrjað síðar að gefa út lög en raun ber vitni. „Því maður ætti að vera orðinn svona genious. Ég er löngu búinn með tíu þúsund klukkutíma en er samt enn bara í meðallagi,“ segir hann.
Melódíur og einlægni
Platan er aðeins frábrugðin fyrri plötum hans að því leyti að hún er poppaðari og það er leið sem hann segist loksins tilbúinn að fara, þrátt fyrir gagnrýni á poppmenningu á fyrri árum. „Eins og ég sagði áður en við fórum í útsendingu ætla ég að biðja alla dægurlagamenningu, sem ég hef sett út á, afsökunar því nú er stefnan búin að breytast aðeins,“ segir hann. „Þessi plata er svona 50/50 popp og rapp og mér finnst líklegt að verkefni sem ég tek að mér eftir þetta verði meira popp. Það er bara eitthvað við melódíur og einlægni.“