Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Bið alla dægurlagamenningu afsökunar“

Mynd: RÚV / RÚV

„Bið alla dægurlagamenningu afsökunar“

24.06.2020 - 13:23

Höfundar

Rapparinn Emmsjé Gauti er ekki vanur því að liggja á skoðunum sínum en viðurkennir að hann hafi mildast með árunum, að minnsta kosti á yfirborðinu. Nýjasta plata hans sem kemur út í byrjun næsta mánaðar er töluvert poppaðari en það sem hann hefur áður gefið út.

Emmsjé Gauti er einn sá reyndasti í bransanum og hefur hann á ferlinum gefið út sex plötur og nú er sú sjöunda á leiðinni. Hún nefnist Bleikt ský og kemur út á næstu dögum. Hann gerir þó lítið úr afrekum í plötuframleiðslu. Yngri kynslóðir rappara dæli út lögum og breiðskífum án þess að það þyki tiltökumál. „Standardinn í dag er að gefa út þrjár plötur á ári.

„Búinn með tíu þúsund klukkutíma en samt í meðallagi“

Mér finnst ég mjög duglegur, en fólk gæti sagt: Hann er náttúrulega bara búinn að gefa út sex plötur á þessum átján árum sem hann hefur verið að rappa.“ Hann segist jafnvel stundum ljúga því að hann hafi byrjað síðar að gefa út lög en raun ber vitni. „Því maður ætti að vera orðinn svona genious. Ég er löngu búinn með tíu þúsund klukkutíma en er samt enn bara í meðallagi,“ segir hann.

Melódíur og einlægni

Platan er aðeins frábrugðin fyrri plötum hans að því leyti að hún er poppaðari og það er leið sem hann segist loksins tilbúinn að fara, þrátt fyrir gagnrýni á poppmenningu á fyrri árum. „Eins og ég sagði áður en við fórum í útsendingu ætla ég að biðja alla dægurlagamenningu, sem ég hef sett út á, afsökunar því nú er stefnan búin að breytast aðeins,“ segir hann. „Þessi plata er svona 50/50 popp og rapp og mér finnst líklegt að verkefni sem ég tek að mér eftir þetta verði meira popp. Það er bara eitthvað við melódíur og einlægni.“

Hugsar enn að fólk sé fífl - en segir það ekki lengur upphátt

Síðasta lag sem Gauti gaf út nefnist Malbik og varð mjög vinsælt. Þar er kraftur í rapparanum en lagið fjallar um ást og eftirsjá. Gauti er þó ekki bara þekktur fyrir ástaróð og kærleiksboðskap. Hann hefur til dæmis ekki alltaf legið á skoðunum sínum og snemma á ferlinum gustaði um hann því hann átti það til að vera beinskeyttur í gagnrýni sinni á samfélagið og jafnvel aðra listamenn. Þegar hann er spurður að því hvort hann hafi mildast með aldrinum segir hann: „Nú hugsa ég um að fólk megi fara til fjandans en ég er búinn að læra í gegnum tíðina að það getur komið manni í vandræði að segja það.“

Ekki hægt að halda partýinu áfram endalaust

Hann viðurkennir þó fúslega að það sé sífellt styttra í alvöru og einlægni hjá honum. „Mér finnst nauðsynlegt þegar maður er að semja tónlist, í list, samtölum eða hverju sem maður tekur sér fyrir hendur, að vera einlægur. Ef maður myndi halda endalaust áfram með partíið myndi fólk að lokum fara að segja: Jæja.“

Platan kemur út eftir níu daga, aðfaranótt föstudags, og útgáfutónleikar verða vikuna eftir í Gamla bíói. Gauti hefur ekki haldið útgáfutónleika síðan árið 2016 en lofar mikilli veislu. „Þegar ég held útgáfutónleika verður það að vera alla leið,“ segir hann. 

Í spilaranum efst í fréttinni má hlýða á viðtalið og kassagítarsútgáfu af nýju lagi rapparans sem nefnist Þrá.

 

Tengdar fréttir

Flottasta myndbandið sem hefur komið úr minni smiðju

Myndband við Malbik og ný plata á leiðinni