Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

BHM telur dóm Félagsdóms rangan

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Bandalag háskólamanna (BHM) telur að dómur Félagsdóms í máli íslenska ríkisins gegn Félagi íslenskra náttúrufræðinga sé rangur og standist ekki lögfræðilega skoðun. Bandalagið sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í dag.

Félagsdómur kvað upp dóminn í gær en ágreiningurinn laut að talningu í atkvæðagreiðslu um breytingar á kjarasamningi milli aðilanna. Rafræn atkvæðagreiðsla um samninginn fór fram í vor og niðurstaða hennar var sú að 265 félagsmenn samþykktu samninginn, 278 höfnuðu honum en 21 félagsmaður skilaði auðu. 

Félag íslenskra náttúrufræðinga túlkaði niðurstöðurnar með þeim hætti að samningurinn hefði verið felldur enda vildu fleiri félagsmenn hafna honum en samþykkja. Íslenska ríkið lagði gagnstæðan skilning í niðurstöðurnar og taldi að samningurinn hefði verið samþykktur því hlutfall þeirra sem vildu fella samninginn var undir fimmtíu prósent af öllum greiddum atkvæðum. Ágreiningurinn snerist því um hvort telja hafi átt auða seðla með.

Ekki er fjallað um tilvik af þessu tagi í löggjöf sem lýtur að kjarasamningum opinberra starfsmanna. Félagsdómur beitti því lögjöfnun í málinu og heimfærði tilvikið undir lög um stéttarfélög og vinnudeilur, sem gilda um kjarasamninga á almennum markaði. 

Í yfirlýsingunni segist BHM hafna algjörlega niðurstöðu Félagsdóms í málinu og þeim lagarökum sem dómurinn byggði á. „Fyrir það fyrsta gilda sérstök lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fráleitt er að halda því fram að ákvæði laga sem gilda um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði geti átt við um kjarasamning milli aðildarfélags BHM og ríkisins nema það sé sérstaklega tekið fram í lögum,“ segir í tilkynningunni.

Þá gagnrýnir BHM dómstólinn fyrir beitingu lögjöfnunar. „Félagsdómur beitir lögjöfnun en það er einungis heimilt í algjörum undantekningartilvikum og getur ekki átt við í þessu máli.“

Bandalagið furðar sig sömuleiðis á að litið hafi verið á að félagsmenn sem skiluðu auðu hafi í reynd samþykkt samninginn. „BHM telur engin rök standa til þess að félagsmaður sem skilar auðum atkvæðaseðli, og tekur þannig ekki afstöðu með eða á móti kjarasamningi, sé með því afstöðuleysi að samþykkja kjarasamning. BHM undrast að Félagsdómur hafi kosið að hafna eða líta framhjá ítarlegum og vönduðum rökstuðningi FÍN í málinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM, segir dóminn rangan fyrst og fremst vegna þess að hann endurspeglar ekki vilja félgasmanna. 

„Við teljum að þarna sé ekki verið að fara að vilja félagsmanna sem greiða atkvæði. Félagsmenn sem ákveða að taka ekki afstöðu með að skila auðu eru ekki meðvitað að greiða atkvæði með eða gegn samningi,“ segir Andri. 

Félagsdómur hefur ekki áður tekið afstöðu til álitamáls af þessu tagi og mun dómurinn því hafa fordæmisgildi ef svipaðar deilur koma upp. Andri segir í því samhengi að tímabært sé að endurskoða löggjöf. 

„Best væri náttúrulega ef það væri gerð tiltekt í lagarammanum og það væri þá löggjafinn í samráði við aðila vinnumarkaðarins sem myndi útkljá hvernig  ramminn á að vera utan um kosningar sem þessa,“ segir hann. 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV