Ugla segir skilið við umboðsskrifstofu J.K. Rowling

Mynd: Sharon Kilgannon / Sharon Kilgannon

Ugla segir skilið við umboðsskrifstofu J.K. Rowling

23.06.2020 - 12:39
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir og maki háns, Fox Fisher, voru þar til í gær hjá sömu umboðsskrifstofu og J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna. Ummæli Rowling um trans fólk á Twitter hafa vakið mikla óánægju.

Ugla Stefanía segir að umboðsskrifstofan hafi verið sett upp utan um Rowling. Þegar þau Fox gengu til liðs viðhana var Rowling ekki búin að láta skoðanir sínar á trans fólki í ljós. „Þegar hún gerði það fórum við að hafa áhyggjur. Hún sagði vonda og ljóta hluti um trans fólk, fannst mér, “ segir Ugla Stefanía. Þau spurðu hvort skrifstofan ætlaði að sýna í verki að hún styddi við trans fólk burtséð frá persónulegum skoðunum Rowling. Þau hafi óskað eftir opnu samtali um réttindi trans fólks á vinnustaðnum og boðist til að hafa einhvers konar fræðslu. 

„Þau tóku hins vegar mjög illa í þau boð frá okkur, komu illa fram við okkur og við ákváðum að við gætum ekki verið hluti af svona vinnustað,“ bætir Ugla Stefanía við. 

Ugla Stefanía segir að þau hafi alls ekki farið fram á að skrifstofan fordæmdi Rowling heldur aðeins beðið um opið samtal og staðfestingu á stuðningi við þau og það sem þau standa fyrir. 

Í tístunum sem Rowling birti fyrr í mánuðinum hneykslaðist hún á að talað væri um fólk sem færi á blæðingar en ekki konur sem færu á blæðingar. Eftir gagnrýni netverja birti hún röð tísta þar sem hún sagðist meðal annars styðja trans fólk og réttindi þess. Á hinn bóginn hafi líf hennar mótast af því að hún sé kona og ekki eigi að túlka það sem hatur að hún sé þeirrar skoðunar að líffræðilegt kyn sé raunverulegt. 

Ugla Stefanía segir að skoðanir Rowling séu settar í ákveðinn búning og það sé erfitt fyrir fólk sem er ekki inni í umræðunni að skilja hvert hún er nákvæmlega að fara. „Þetta hljómar eins og skoðanir sem meika sens en skoðanirnar sem liggja á bak við þær eru að trans fólk eigi ekki að fá aðgang að kynjuðum rýmum í samræmi við kynvitund sína.“

Rowling virðist vera þeirrar skoðunar að fólk fæðist í ákveðnum líkama og sé því annað hvort kona eða karl. „Það sem trans fólk berst fyrir er að fólk átti sig á því að þetta er ekki alveg svona einfalt.“ Ugla bætir því við að orðin kyn, sem á ensku er sex, og kyngervi, sem á ensku er gender, séu oft notuð á sama hátt en merki þó ekki það sama. „Munurinn liggur í því að kyngervi á við þennan félagslega þátt og okkar félagslega skilning á því hvort fólk er karl eða kona. Kyn eða kyneinkenni snúa að þeim líkamlegu einkennum sem við höfum, leg eða eggjastokka, eða eitthvað annað.“ 

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.