Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja Vaðlaheiðargöng örugg í jarðskjálftum

23.06.2020 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Vaðlaheiðargöng
Jarðgöng eru almennt talin örugg í jarðskjálftum, enda nýjustu jarðgöng sérstaklega hönnuð til að standast jarðskjálfta. Þetta er ítrekað í færslu á Facebooksíðu Vaðlaheiðarganga.

Þar er bent á, vegna tíðra jarðskjálfta undanfarið, að jarðgöng í bergi og á þokkalegu dýpi eins og Vaðlaheiðargöng séu nokkuð örugg í skjálftum. Göngin sveiflist með skjálftabylgjum og því laus við yfirborðsbylgur. Allir bergveggir séu styrktir með bergboltum og 10-20 sentimetra þykkri steypuhúð.

„Þá verður fróðlegt að fylgjast með hvort vatnsmagn aukist eða minnki út úr göngunum, eins og staðan er núna virðist þessir skjálftar ekki haft nein áhrif á vatnsmagn eða hita vatns út úr göngunum,“ segir einnig í tilkynningu Vaðlaheiðarganga.

Þessar sömu upplýsingar komu fram í skjálftahrinunni undan Norðurlandi árið 2012. Þá sagði Björn Harðarson, jarðverkfræðingur, í samtali við RÚV að vegskálar Héðinsfjarðarganga væru sérbyggðir til að standast jarðskjálfta. Þá væri steypuhúðunin í göngunum með stáltrefjum og því mjög sveigjanleg í skjálftum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV