Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir engin áform uppi um lokanir í sumar

23.06.2020 - 18:31
Innlent · SÁÁ · Vogur
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir að engar lokanir séu á áætlun á sjúkrahúsinu Vogi. Valgerður áréttaði þetta í tilkynningu sem hún birti á Facebook í dag.

„Til að leiðrétta rangfærslur um SÁÁ skal tekið skýrt fram að engar lokanir eru á áætlun á sjúkrahúsinu Vogi. Sömuleiðis tel ég nú sem fyrr, að heilbrigðisstarfseminni sé áfram best borgið hjá SÁÁ, með samningum við ríkið. Mikilvægast er að tryggja faglega stjórn, framþróun og endurnýjun svo meðferðarstarf SÁÁ haldi velli, og því trausti sem til þarf,” segir í færslunni. 

Sjúkratryggingar Íslands birtu sömuleiðis tilkynningu á Facebook þar sem áréttað er að aðgengi að þjónustu samkvæmt samningum SÍ við SÁÁ verði með sama hætti og verið hefur síðustu sumur. 

Mynd með færslu
Valgerður Rúnarsdóttir.

Áréttingin kemur í kjölfar ummæla Olgu Kristrúnar Ingólfsdóttur og Erlu Bjargar Sigurðardóttur, meðlima framkvæmdastjórnar SÁÁ, um fyrirhugaðar skerðingar. Í viðtali við mbl.is í síðustu viku sögðu Olga og Erla að til stæði að loka sjúkrahúsinu Vogi í átta vikur í sumar og að skerða ætti opnunartíma meðferðarheimilisins Víkur. Þær lýstu því yfir að þeim hugnaðist ekki þessar breytingar. 

Í vor var gerð krafa um 125 milljón króna sparnað á meðferðasviði SÁÁ  það sem eftir er árs. Valgerður segir í samtali við fréttastofu að gripið hafi verið til ýmissa sparnaðaraðgerða, en hún segir ekki rétt að sumarlokanir hafi verið þeirra á meðal. „Farin var sú leið að draga úr innritunum um fimmtán til tuttugu prósent það sem eftir er árs,” segir Valgerður og bætir við að allir starfsmenn hafi þar að auki tekið á sig tuttugu prósenta launaskerðingu í apríl og maí. 

Íslenska ríkið stendur undir langstærstum hluta kostnaðar við starfsemi SÁÁ. Valgerður segir mikilvægt að traust ríki milli aðilanna og bætir við að í því samhengi sé mikilvægt að ákvarðanir séu teknar á faglegum grunni.