Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Samþykktu að greiða leið tveggja vindorkuvera

23.06.2020 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti í gær breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem gera ráð fyrir því að þar rísi tvö vindorkuver. Breytt aðalskipulag er nú til umsagnar hjá Skipulagsstofnun sem síðan auglýsir breytingarnar og opnar fyrir umsagnir. Andstæðingar annars vindorkuversins hafa lokað vefsíðunni Dalabyggð.is í mótmælaskyni.

Virkjunaráform upp á allt að 280 MW í Dalabyggð

Vindorkuverin eru annars vegar í landi Hróðnýjarstaða og hins vegar í landi Sólheima. Jarðirnar eru báðar í Laxárdal og gera ráð fyrir allt að þrjátíu til fjörutíu vindmyllum í sitt hvoru lagi. Uppsett afl virkjunarinnar á Hróðnýjarstöðum verði allt að 130 MW og 150 MW í Sólheimum.

Fyrirtækið Storm Orka stendur að baki áætlunum á Hróðnýjarstöðum. Quadran Iceland Development hyggst þá beisla vindinn í landi Sólheima. Þetta eru tvö að þremur vindorkugörðum af ámóta stærð sem eru í ferli á Vesturlandi. Fyrirtækið EM Orka áformar 130 MW vindorkugarð í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólasveit. Til viðbótar við þetta eru áætlanir um að reisa tvær til sex vindmyllur upp á allt að 30 MW á Grjóthálsi í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð.  

Vildu að sveitarstjórn hinkraði eftir skýrara regluverki

Ábúendur jarða í návígi við Hróðnýjarstaði hafa haft uppi hávær mótmæli vegna fyrirhugaðrar virkjunar. Meðal annars nefnt hljóð- og sjónmengun og lækkað fasteignamat sér til foráttu. Þá hafa þeir undirstrikað að lagarammi um vindorkuver hér á landi sé ekki nógu skýr og að hyggilegra væri fyrir sveitarstjórn Dalabyggðar að bíða með skipulagsbreytingar þar til hið opinbera hefur skerpt á honum. Í ljósi þess að sveitarstjórn ákvað að samþykkja breytinguna hefur vefsíðunni búðardalur.is verið lokað í mótmælaskyni.

Ásamt því að samþykkja skipulagsbreytingarnar ákvað sveitarstjórn einnig að lögð skyldi könnun fyrir Dalamenn um viðhorf þeirra gagnvart vindorkuverum. 

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti í Dalabyggð, hefur tekið undir það að þörf sé á að skerpa hvernig málefnum vindorku skal hagað hér á landi. Það taldi hann þó ekki standa í vegi fyrir því að sveitarfélagið samþykkti skipulagsbreytingar. 

Áhyggjur af hljóðmengun ekki á rökum reistar

Magnús Jóhannesson, einn eigenda Storm orku, blés á áhyggjur landeigenda í samtali við fréttastofu nú nýlega. Þá sagði hann sjónmengun vissulega fylgja vindmyllum, en að áhyggjur af hljóðmengun væru ekki á rökum reistar. Þá undirstrikaði hann einnig samlegðaráhrif vindorkuvers. Með því kæmu fjölmörg afleidd störf sem og aukið afhendingaröryggi raforku í Dalabyggð.