Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sálfræðihernaður hafinn á Kóreuskaga

23.06.2020 - 06:33
epa08503045 A propaganda loudspeaker (L) is seen near a North Korean guard post (R) inside the Demilitarized Zone (DMZ), in this photo taken from the South Korean border city of Paju, 30 kilometers north of Seoul, South Korea, 23 June 2020. Pyongyang began to reinstall loudspeakers on 21 June, citing anti-Pyongyang leaflets recently sent into the North by defectors. The Koreas removed their loudspeakers from the DMZ in adherence to the Panmunjom Declaration on 27 April 2018.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA
Spennan á Kóreuskaga hefur farið hríðvaxandi síðan Norður-Kórea sprengdi upp samstarfsskrifstofu Kóreuríkjanna þeirra megin landamæranna. Í gær sást til hermanna setja upp stærðarinnar hátalara, sem hafa verið notaðir til þess að dreifa áróðri suður yfir landamærin.

Þeir voru teknir niður eftir vel heppnaðar viðræður Suður- og Norður-Kóreu árið 2018 um að láta af öllum ógnandi tilburðum við landamærin. Reuters hefur eftir heimildarmanni úr suðurkóreska hernum að þarlend stjórnvöld hafi hugsað sér að gjalda í sömu  mynt.

Áratugum saman létu ríkin áróður dynja yfir landamæri hvors annars í sálfræðihernaðinum sín á milli. Úr suðri voru færðar fréttir, kóresk popptónlist leikin og stjórnvöld í norðri gagnrýnd. Á móti var einræðisstjórnin í norðri dásömuð suður yfir landamærin.

Áróðursblöðrur sendar á milli

Sálfræðihernaðurinn hófst á nýjan leik þegar flóttamenn frá Norður-Kóreu sendu áróðursbæklinga frá Suður-Kóreu yfir landamærin. Hópar flóttamanna hafa sent einblöðunga, mat, peningaseðla, lítil útvarpstæki og minnislykla með sjónvarps- og fréttaþáttum frá Suður-Kóreu til heimahaganna í norðri, ýmist með blöðrum eða í flöskum yfir ár. Samkvæmt ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu eru hefndaraðgerðir fyrirhugaðar þeim megin landamæranna. Stjórnvöld eru að undirbúa um tólf milljónir bæklinga til að senda til suðurs.

Svo virtist sem þíða væri að komast á samskipti Kóreuríkjanna fyrir um tveimur árum síðan þegar þeir Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, héldu nokkra fundi saman. Moon náði meira að segja að sannfæra bæði Kim og Donald Trump Bandaríkjaforseta um að halda ráðstefnu, en Bandaríkin eru erkióvinur Norður-Kóreu. Á öðrum leiðtogafundi þeirra Trumps og Kim, sem haldin var í Hanoi í Víetnam, fóru viðræður hins vegar út um þúfur. Síðan þá hafa samskipti Kóreuríkjanna verið verulega stirð að nýju, og mikil spenna á milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.