
Sálfræðihernaður hafinn á Kóreuskaga
Þeir voru teknir niður eftir vel heppnaðar viðræður Suður- og Norður-Kóreu árið 2018 um að láta af öllum ógnandi tilburðum við landamærin. Reuters hefur eftir heimildarmanni úr suðurkóreska hernum að þarlend stjórnvöld hafi hugsað sér að gjalda í sömu mynt.
Áratugum saman létu ríkin áróður dynja yfir landamæri hvors annars í sálfræðihernaðinum sín á milli. Úr suðri voru færðar fréttir, kóresk popptónlist leikin og stjórnvöld í norðri gagnrýnd. Á móti var einræðisstjórnin í norðri dásömuð suður yfir landamærin.
Áróðursblöðrur sendar á milli
Sálfræðihernaðurinn hófst á nýjan leik þegar flóttamenn frá Norður-Kóreu sendu áróðursbæklinga frá Suður-Kóreu yfir landamærin. Hópar flóttamanna hafa sent einblöðunga, mat, peningaseðla, lítil útvarpstæki og minnislykla með sjónvarps- og fréttaþáttum frá Suður-Kóreu til heimahaganna í norðri, ýmist með blöðrum eða í flöskum yfir ár. Samkvæmt ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu eru hefndaraðgerðir fyrirhugaðar þeim megin landamæranna. Stjórnvöld eru að undirbúa um tólf milljónir bæklinga til að senda til suðurs.
Svo virtist sem þíða væri að komast á samskipti Kóreuríkjanna fyrir um tveimur árum síðan þegar þeir Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, héldu nokkra fundi saman. Moon náði meira að segja að sannfæra bæði Kim og Donald Trump Bandaríkjaforseta um að halda ráðstefnu, en Bandaríkin eru erkióvinur Norður-Kóreu. Á öðrum leiðtogafundi þeirra Trumps og Kim, sem haldin var í Hanoi í Víetnam, fóru viðræður hins vegar út um þúfur. Síðan þá hafa samskipti Kóreuríkjanna verið verulega stirð að nýju, og mikil spenna á milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.