Fór á hárgreiðslustofu og bað um „smákrimma-klippingu“

Mynd: RÚV / RÚV

Fór á hárgreiðslustofu og bað um „smákrimma-klippingu“

23.06.2020 - 11:01

Höfundar

Steindi Jr. leikur á móti stórleikkonunni Eddu Björgvins í kvikmyndinni Ömmu Hófí sem verður frumsýnd 10. júlí. Edda og Laddi leika eldri borgara sem tapa öllum sparnaði sínum í bankahruninu og grípa til sinna ráða. Steindi er í hlutverki glæpamanns sem telur sig meiri stórlax en hann er í raun.

Amma Hófí er framleidd af Markell-bræðrum, sem gerðu Síðustu veiðiferðina. Gunnar Björn Guðmundsson, sem gerði meðal annars Astrópíu og Gauragang, skrifar handrit og leikstýrir. „Myndin fjallar um Hófí sem er leikin af Eddu Björgvinsdóttur. Þegar maðurinn hennar deyr selur hún allt sitt og flytur á elliheimili en lendir þar á herbergi með kalli sem Laddi leikur. Hún er ekki alveg sátt við það og þegar hún fer og ætlar að tékka á varasjóðnum sínum er hann horfinn eftir hrunið. Þannig að hún ákveður að sækja peninginn, það er að segja fara í bankann og ræna hann,“ segir Gunnar. 

Ýmsir landsþekktir grínistar fara með aukahlutverk, til dæmis Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr. „Þetta inniber bankarán og Steindi er alvöru smákrimmi,“ segir Edda um mótleikarann og Steindi tekur undir. „Ég er smákrimmi en lít rosalega stórt á mig. Ég er kominn með strípur og svona. Þegar ég fór á hárgreiðslustofuna þá bað ég um smákrimma-klippingu. Ég vona að ég sé ekki að móðga neinn,“ segir Steindi sem skartar nýju hárgreiðslunni.

Steindi og Edda léku áður saman í myndinni Undir trénu. „Það er náttúrulega bara æðislegt og alltaf jafn gaman að vera með Eddu og heiður að vinna með henni,“ segir Steindi um samstarfið. „En það er aðeins léttara yfir þessu núna.“

Menningin leit við á tökustað í vetur. Horfa má innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Í dag væri þetta kallað dólgafemínismi“

Menningarefni

„Enn er ég á núllpunkti, það er bara svarthol“

Sjónvarp

Safna fyrir „gay“ sprautuklámmynd með vampírum