Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert fyrirtæki fengið brúarlán eða stuðningslán  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur enn fengið brúarlán, en lánin voru kynnt sem ein áhrifamesta aðgerð ríkisstjórnarinnar í fyrsta aðgerðapakkanum vegna COVID-19 faraldursins. Þá hefur ekki verið opnað fyrir umsóknir um stuðningslán sem kynnt voru sem hluti af öðrum aðgerðapakkanum og ætluð eru smærri fyrirtækjum. 

Veiting lánanna í höndum fjögurra banka 

Brúarlán voru kynnt á blaðamannafundi fyrir þremur mánuðum, þann 21. mars. Þeim er ætlað að sporna gegn rekstrarvanda fyrirtækja með því að gera bönkum kleift að veita fyrirtækjum lán með allt að 70 prósenta ríkisábyrgð. Hvert lán getur numið að hámarki 1,2 milljörðum króna. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði að lánin ættu „að gefa þjóðarskútunni einhvern byr á seglin á komandi misserum“.  

Fjármála- og efnahagsráðuneytið samdi við Seðlabanka Íslands um framkvæmd ábyrgðakerfisins þann 17. apríl síðastliðinn. Þremur vikum síðar, þann 7. maí, undirritaði Seðlabankinn svo samninga við Íslandsbanka, Arion banka, Kviku banka og Landsbankann þar sem bönkunum var falið að veita lánin.  

Engin brúarlán verið veitt  

Enginn bankanna fjögurra sem Seðlabankinn samdi við um veitingu lánanna til fyrirtækja hefur enn veitt brúarlán. Þetta staðfestu bankarnir við fréttastofu í gær.  

Í Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka fer nú fram undirbúningur við lánveitingar og vonast bankarnir til að lán verði veitt innan skamms. Kvika banki hefur heldur ekki veitt nein lán, en samkvæmt svörum við fyrirspurn fréttastofu er eitt slíkt mál í vinnslu. Skýringin sem fékkst frá bönkunum var að lánin væru stór og að mörgu væri að huga við undirbúninginn.

Umfangsmikil brúarlán skipa mikilvægan sess í viðspyrnu nágrannalanda  

Lán á borð við brúarlánin hafa gegnt lykilhlutverki til að stemma stigu við efnahagsáhrifum faraldursins víða í Evrópu. Sem dæmi má nefna að í Frakklandi hafa um 400 þúsund frönsk fyrirtæki fengið slík lán, með 80-90 prósenta ríkisábyrgð. Í lok maí höfðu frönsk yfirvöld veitt fjármagni sem nemur þremur prósentum af vergri landsframleiðslu í brúarlán.

Fjármálaráðherra Bretlands sætti harðri gagnrýni vegna þess hve langan tíma tók að koma ríkisábyrgðarlánum þar í gagnið. Samkvæmt Financial Times hafa þó fleiri en 300 þúsund bresk fyrirtæki þegar fengið ríkisábyrgðarlán, og nemur umfang þegar veittra lána hátt í tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu Bretlands.  

Ekki búið að opna fyrir umsóknir um stuðningslán á Ísland.is  

Þá hafa heldur engin fyrirtæki fengið svokölluð stuðningslán. Stuðningslán voru kynnt sem hluti af öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar þann 21. apríl síðastliðinn. Þau voru ætluð minni fyrirtækjum en brúarlánin og áttu að vera tryggð með ríkisábyrgð að fullu.  

Að sögn Vigdísar Jóhannsdóttur, markaðsstjóra Stafræns Íslands, hefur ekki verið opnað fyrir umsóknir um slík lán á Ísland.is, enda enn ófrágengnir samningar tengdir lánveitingunni milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Seðlabankans og lánastofnana. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum þarf að ganga frá nokkrum samningum vegna stuðningslánanna og samningagerðin í eðlilegum farvegi.

 

Fréttin var uppfærð kl. 9:51