„Ég hef aldrei keypt mér verk til að græða á því“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég hef aldrei keypt mér verk til að græða á því“

23.06.2020 - 09:22

Höfundar

Á sýningunni Tíðarandi í Listasafni Árnesinga birtist sneiðmynd af íslenskri myndlist undanfarinn áratug. Verkin eiga það sameiginlegt að koma öll úr safni Skúla Gunnlaugssonar, hjartalæknis og listaverkasafnara.

Á sýningunni eru um 60 verk eftir 55 listamenn, sem allir eru fæddir á árunum 1970-1993. „Það sem við vildum gera með þessari sýningu er að skapa heim um það sem er að gerast í dag, þetta er ekki fortíðin, þetta er ekki framtíðin, þetta er núið,“ segir Skúli. Listaverkasafn hans telur nú um 900 verk frá öllum tímabilum íslenskrar myndlistarsögu. „Ég er að skapa þennan heim sem er eins konar yfirlit þannig að fólk geti fengið mjög góða yfirsýn yfir íslenska myndlist og hvernig hún hefur þróast,“ segir hann. „Þetta eru gömlu meistararnir, módernistarnir, nýja málverkið og nútímalistin.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verkin á sýningunni eru fjölbreytt

Vigdís Rún Jónsdóttir er sýningarstjóri. „Ég lít á þessa sýningu sem yfirlitssýningu á samtímaverkum þessarar yngri kynslóðar listamanna. Að mínu viti held ég að það hafi ekki verið sett upp sambærileg sýning á samtímalistamönnum í stóru söfnunum og vonast til að þessi sýning opni augu fólks fyrir samtímalist,“ segir hún.  

Skúli leggur áherslu á að hafa verk úr sínu safni til sýnis fyrir almenning.  „Ég hef aldrei keypt verk með því hugarfari að selja það eða græða á því, ég er að fara með listina til fólksins.“ Hann segir hið óvænta heilla sig í myndlist.  „Ég er hjartalæknir og kem úr konkret heimi þar sem allt er stífað niður og á vísan að róa með flest. En í þessu, það er alltaf eitthvað óvænt og ef ég finn eitthvað óvænt þá er sigur unninn. Listamaðurinn er alltaf að segja eitthvað þótt okkur endist ekki ævin til að komast að því hvað það er.“  

Fjallað var um Tíðaranda í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Heilög stund að opna pizzakassann

Myndlist

„Að vera barin niður er það besta sem kom fyrir mig“