Á sýningunni eru um 60 verk eftir 55 listamenn, sem allir eru fæddir á árunum 1970-1993. „Það sem við vildum gera með þessari sýningu er að skapa heim um það sem er að gerast í dag, þetta er ekki fortíðin, þetta er ekki framtíðin, þetta er núið,“ segir Skúli. Listaverkasafn hans telur nú um 900 verk frá öllum tímabilum íslenskrar myndlistarsögu. „Ég er að skapa þennan heim sem er eins konar yfirlit þannig að fólk geti fengið mjög góða yfirsýn yfir íslenska myndlist og hvernig hún hefur þróast,“ segir hann. „Þetta eru gömlu meistararnir, módernistarnir, nýja málverkið og nútímalistin.“