Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umræða um samgönguáætlun nálgast 40 tíma

22.06.2020 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Seinni umræða um samgönguáætlun fer nú fram á Alþingi og hefur umræðan nú staðið yfir í rúmar 37 klukkustundir. Megnið af þeim tíma hafa þingmenn Miðflokksins staðið í ræðustól. Þeir hafa einkum gagnrýnt áform um Borgarlínu en einnig rætt önnur mál. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hélt sína 30. ræðu um samgönguáætlun rétt fyrir klukkan sex síðdegis. Aðrir þingmenn Miðflokksins hafa flestir flutt milli tuttugu og þrjátíu ræður.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, kvað sér orðs í andsvörum við 30. ræðu Birgis. Hann sagði ástæðu til að minnast á þau tímamót að þar með hefði fyrsti þingmaðurinn haldið sína 30. ræðu um málið. Kolbeinn óskaði Birgi um leið til hamingju og bauð fram aðstoð sína svo Birgir gæti kjarnað mál sitt betur. „Svo að hann þurfi kannski ekki 30 ræður í viðbót.“

Birgir þakkaði fyrir boðið en afþakkaði það um leið. „Ég vil bara benda háttvirtum þingmanni á það að ef hann telur að ég hafi ekki verið nógu kjarnyrtur í þessum 30 ræðum sem ég hef flutt hér þá bið ég honum bara að fara vandlega yfir það og benda mér á það hvort að ég hafi einhvern tímann flutt sömu ræðuna aftur.“ Birgir spurði Kolbein hvort hann hefði kannað það og fékk neikvætt svar. Sagðist Birgir þá aldrei hafa flutt sömu ræðuna tvisvar.

„Hæstvirtur forseti, getur forseti upplýst mig um númer hvað þessi ræða mín er í þessari umræðu?“ spurði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í upphafi næstu ræðu sinnar. Hann sagðist hafa flutt um 50 ræður í orkupakkanum í fyrra án þess að Kolbeinn hefði séð ástæðu til að óska sér til hamingju eins og hann óskaði Birgi nú til hamingju. „Mér sárnaði þetta nokkuð herra forseti, mér sárnaði þetta nokkuð.“ Ræða Þorsteins snerist svo um Kolbein og hvatningu til hans um að taka efnislega þátt í umræðunni. Að henni lokinni bað Þorsteinn forseta að bæta sér aftur á mælendalista.