Tveir milljarðar evra úr reikningum Wirecard ekki til

22.06.2020 - 15:04
epa08501790 (FILE) - Company signage of the financial services and payment processor company Wirecard at the company headquarters building in Aschheim near Munich, Bavaria, Germany, 25 April 2019 (reissued 22 June 2020). Reports on 22 June 2020 state Wirecard, whose CEO Markus Braun was forced to resign on 19 June 2020, on 22 June admitted the estimated two billion euros it claimed to have in its balance sheet do not exist. The announcement caused Wirecard shares to plummet up to 46 per cent while the company took back its full year 2019 and 1st quarter 2020 results report.  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um tveir milljarðar evra af bókfærðum eignum þýska greiðslumiðlunarfyrirtækisins Wirecard eru líklega ekki til. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sjálfu. Endurskoðendur hafa undanfarið verið að skoða hvar þessir peningar, sem voru skráðir í áhættustýringu á Filippseyjum, eru niður komnir.

Nokkuð hefur verið fjallað um að starfsemi fyrirtækisins í Asíu sé ekki í samræmi við góða viðskiptahætti. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem fyrirtækið sjálft staðfestir slíkt. Málinu hefur verið líkt við frægt hneyksli tengt bandaríska fyrirtækinu Enron.

Saga Wirecard var fram að þessu samfelld saga mikillar velgengni. Það var stofnað 1999 og byrjaði smátt, var aðallega í að fjárfesta í veðmála- og klámvefsíðum. Fyrirtækið jók svo smátt og smátt umsvif sín í rafrænni greiðslumiðlun um heim allan. Það þótti til marks um frábæran árangur þess að árið 2018 komst það inn í þýsku DAX 30 vísitöluna. Þangað komast þrjátíu stærstu fyrirtæki sem mynda verðbréfavísitöluna í Frankfurt í Þýskalandi. Wirecard ýtti þar ekki ómerkara fyrirtæki en Commerzbank út af listanum. Fyrirtækið hafði þá fjórfaldað tekjur sínar á fimm árum og voru árstekjurnar þetta ár, 2018, rúmlega tveir milljarðar evra.

Forstjórinn neitaði öllu misjöfnu

En kuskið féll fyrst á hvítflibbann hjá fyrirtækinu þegar Financial Times birti frétt af því fyrir einu og hálfu ári að ekki væri allt með felldu í starfsemi fyrirtækisins í Asíu. Sú frétt var byggð á gögnum frá uppljóstrara. Stjórn Wirecard lét endurskoðunarfyrirtækið KPGM rannsaka málið og niðurstöðurnar, sem urðu ljósar í apríl, staðfestu að eitthvað væri bogið við bókhaldið. Markus Braun forstjóri fyrirtækisins neitaði hins vegar alltaf að nokkuð misjafnt ætti sér stað.

Endurskoðunarfyrirtækið, Earnst & Young, neitaði hins vegar að skrifa undir ársreikning fyrirtækisins fyrir síðasta ár. Ástæðan var sú að 1,9 milljarðar evra sem áttu að vera í áhættustýringu fundust ekki. Þeim hafi til að mynda ekki tekist að fá frá starfsmönnum fyrirtækisins númerið á reikningunum sem áttu að geyma peningana. Birtingu ársreikningsins hefur verið frestað fjórum sinnum.

Á föstudaginn sagði Markus Braun af sér og á sunnudag lýsti seðlabankastjóri Filippseyja því yfir í fjölmiðlum að þessi 1,9 milljarðar evra, hátt í þrjú hundruð milljarðar króna, hafi aldrei komið inn í fjármálakerfið þar í landi. Nöfn tveggja stærstu banka landsins hefðu verið notuð til að villa um fyrir rannsakendum.

Tilkynningin í morgun staðfesti svo það sem menn grunaði. „Miðað við frekari rannsóknir eru yfirgnæfandi líkur á bankainnistæða að fjárhæð 1,9 milljarðar evra sé ekki til,“ segir þar. Þetta jafngildir um fjórðungi af heildareignum fyrirtækisins. Jafnframt var tilkynnt að bráðabirgðauppgjör bæði fyrir síðasta árfjórðung 2019 og fyrsta ársfjórðung þessa árs, yrði dregið til baka. Fyrirtækið væri nú í neyðarviðræðum við banka og lánardrottna til að reyna að halda sér gangandi og þá væri verið að skoða frekari ráðstafanir, þar á meðal sölu eigna eða lokun einhverrar starfsemi.

Verðið í bréfunum hefur hrunið síðustu daga eftir þessa atburðarás. Það var metið á 24 milljarða evra fyrir tveimur árum, en nú er það undir þriggja milljarða evra virði. Um 6.000 manns vinna hjá fyrirtækinu í 24 löndum.

Málinu hefur reglulega verið líkt við hneykslið í kringum bandaríska orkufyrirtækið Enron. Gjaldþrot þess var gríðarstórt og við það komst upp um svik bæði við bókhald og endurskoðun og voru stjórnmálamenn flæktir í það hneyksli. Ekkert slíkt hefur komið í ljós vegna Wirecard en líklegt er að villandi upplýsingum um starfsemina hafi verið komið á framfæri. Rannsókn á væntanlega eftir að leiða í ljós hver ber ábyrgð á því.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi