Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stytta af gömlum nýlenduherra Grænlands skemmd

Styttan af Hans Egede eftir skemmdarverkin.
 Mynd: knr.gl - KNR - grænlenska útvarpið

Stytta af gömlum nýlenduherra Grænlands skemmd

22.06.2020 - 15:48

Höfundar

Stytta af Hans Egede, sem stendur við höfnina í Nuuk á Grænlandi, var máluð með rauðum lit í fyrrinótt, nóttina áður en Grænlendingar héldu upp á þjóðhátíðardaginn sinn. Þá var skrifað á hana decolonize, sem þýðir þá að Grænland fái fullt sjálfstæði. Lögreglan rannsakar málið sem gróft skemmdarverk.

Þessi verknaður er líklega angi af því að eftir morðið á George Floyd í Minneapolis í Bandaríkjunum hefur farið af stað barátta fyrir því að styttur af sögufrægum mönnum sem eru þekktir fyrir kúgunartilburði jafnt sem jákvæðari sögufræg verk verði teknar niður. Fjölmargar slíkar styttur hafa ýmist verið skemmdar eða teknar niður.

Hans Egede var lútherskur trúboði á fyrri hluta 18. aldra, oft nefndur Postuli Grænlands. Hann kom til Grænlands árið 1721 í þeim tilgangi að kristna norræna menn, en þar sem þeir fundust ekki á Grænlandi þá stundaði hann trúboðið á innúítum í staðinn. Hann stýrði Grænlandi fyrir hönd Dana um miðja öldina og stofnaði meðal annars Nuuk, sem er nú höfuðstaður Grænlands. 

Í bókinni Rauður maður/Svartur maður, sem er annað bindið í þríleik rithöfundarins Kim Leine um Grænland, segir meðal annars frá því að Egede hafi stýrt danskri nýlendu í upphafi 18. aldar. Grænlenskum strák, sem var fársjúkur, var komið í fóstur hjá Egede og konu hans, en trúboðinn ákvað að skíra strákinn og hafa hann hjá sér, og faðir drengsins endurheimti hann aldrei. 

Ekki er vitað hverjir voru að verki við að mála styttuna af Egede á þennan hátt, en þeir hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að tími sé kominn til að Grænlendingar hætti að heiðra nýlenduherra og byrji að taka það sem er þeirra með réttu. Enginn nýlendurherra eigi skilið að standa uppi á fjalli á þennan hátt - fólk verði að vita sannleikann um sögu Grænlands.

Listamaðurinn Aqqalu Berthelsen, sem er einnig þekktur undir nafninu Uyarakq, sendi yfirlýsinguna fyrir hönd þeirra sem frömdu verkið, en hún er sjálf búsett í Finnlandi. Hann hefur barist lengi fyrir því að þessi stytta, og tvær aðrar af sama manni í Kaupmannahöfn og Ósló, verði teknar niður. Styttan hefur þrisvar áður verið máluð rauð á svipaðan hátt, fyrst árið 1973.

Vantar umræðu um það sem gerðist

Unnur Brá Konráðsdóttir var formaður Vestnorræna ráðsins og þekkir vel til á Grænlandi. Hún segir ástæðuna fyrir þessari bylgju einfaldleg að Egede hafi leitt þá vinnu sem gerði Danmörku að nýlenduherra Grænlendinga. „Það er verið að benda á að þeir sem vildu ekki snúa til kristinnar trúar hefðu verið pyntaðir og sætt ómannúðlegri meðferð þannig að þessi daga er ekki alltaf falleg. En það er þessi alþjóðlega bylgja sem kemur þessu af stað.“

Unnur segir marga telja að þessi yfirtaka Dana á Grænandi hafi aldrei almennilega verið rædd. „Umræðan er oft þögguð niður og fer jafnvel út í ásakanir um rasisma. Þá er jafnvel spurt hvort maður sé á móti öllum Dönum. Það vill enginn hafa það orðspor á sér og því hefur verið erfitt að taka þessa umræðu. Mörgum finnst að það þurfi meira uppgjör á hvernig þetta var,“ segir Unnur Brá.