Snara skilin eftir í skúr eina svarta ökumanns NASCAR

22.06.2020 - 04:05
Ryan Repko (20) leads the field during a warm up lap at the NASCAR ARCA auto race at the Talladega Superspeedway in Talladega Ala., Saturday June 20, 2020 (AP Photo/John Bazemore)
 Mynd: AP
Bandaríska akstursíþróttasambandið NASCAR rannsakar nú hvernig hengingarsnara komst inn í bílskúr ökuþórsins Bubba Wallace við Talladega Superspeedway kappakstursbrautina í Alabama í Bandaríkjunum. Wallace er eini svarti ökumaðurinn í NASCAR.

NASCAR segir í yfirlýsingu að stjórnendur sambandsins séu bálreiðir og orð fái ekki lýst hversu alvarlega þessi svívirðilegi atburður sé tekinn innan sambandsins. Allt verður gert til þess að komast að því hver, eða hverjir, beri ábyrgð á því að skilja snöruna eftir í bílskúrnum. Hverjir sem hafi verið að verki fái ekki að koma nálægt keppnum NASCAR. „Eins og við höfum lýst ótvírætt yfir, er ekkert pláss fyrir rasisma hjá NASCAR og þetta styrkir okkur aðeins í því að opna íþróttina fyrir alla,“ segir í yfirlýsingu sambandsins.

Wallace hefur sjálfur tjáð skoðanir sínar um kynþáttamisrétti eftir dauða George Floyd í höndum lögreglu í Minneapolis í síðasta mánuði. Hann skrifaði á Twitter að hann væri einstaklega sorgmæddur yfir þessu ógeðfellda rasíska uppátæki. Þetta verði þó ekki til þess að hann brotni, hann ætli ekki að gefast upp.

Wallace átti stóran þátt í því að NASCAR bannaði að hafa fána Suðurríkjasambandsins sýnilegan á keppnum á vegum sambandsins.

Fáninn er vinsæll meðal stuðningsmanna íþróttarinnar, sérstaklega í suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann er þó enn táknmynd þrældóms og rasisma fyrir mörgum. Snaran sjálf er svo vísun til þess tíma í bandarískri sögu þegar hvítur múgur tók svart fólk af lífi með hengingum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi