Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sigurður Ingi furðar sig á töfum Miðflokksmanna

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Samgönguáætlun næstu fimm ára var rædd í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um hvaða verkefni myndu tefjast ef afgreiðsla málsins frestast fram á haust. Sigurður furðaði sig hins vegar á tregðu Miðflokksmanna við að samþykkja áætlunina áður en Alþingi gerir hlé á störfum sínum í sumar.

Umræður um samgönguáætlunina héldu áfram eftir að óundirbúnum fyrirspurnatíma lauk en þar var málið fyrst á dagskrá. Á mælendaskrá voru Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Sigurður Páll Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Ísleifsson, þingmenn Miðflokksins.

Umræðurnar stóðu til klukkan eitt en þá var gert hlé á þingfundi. Hann mun hefjast á ný klukkan 14:30. 

Segir töf verða á öllum verkefnum sem flýtt var

Bergþór lagði fram óundirbúna fyrirspurn til Sigurðar Inga um hvaða verkefni frestast ef fyrirliggjandi samgönguáætlun verður samþykkt á næsta haustþingi en ekki nú í vor.

Sigurður svaraði því að verkefni færu aftar í forgangsröðunina ef samþykkt áætlunarinnar myndi frestast þar til í haust. 

„Það má segja að allt það sem við erum að flýta innan samgönguáætlunarinnar, það mun lenda í ákveðnum töfum, því skilaboðin frá þinginu eru ekki þau að verkin séu aðkallandi,“ sagði Sigurður. 

Bergþór kom aftur í pontu og krafðist nánari útskýringa á hvaða verkefni myndu frestast ef áætlunin verður ekki samþykkt í vor. 

„Nú liggur fyrir samþykkt samgönguáætlun sem er rúmlega tólf mánaða gömul. Það liggur fyrir þingsályktun um fjárfestingarátak þar sem 6,5 milljarðar fara til samgönguframkvæmda. Síðan er búið að flagga því að 1. október verði lögð önnur áætlun sem vissulega ýtir mikilvægum verkefnum áfram. En ég ítreka hvort hæstvirtur ráðherra sé tilbúinn að nefna einhverjar tilteknar framkvæmdir sem að frestast verði þetta þróun mála, spurði Bergþór.

„Af hverju ekki að klára það verkefni núna?“

Sigurður Ingi sagði að þau verkefni í gildandi samgönguáætlun sem ákveðið hefur verið að flýta hafi fengið aukna vigt. Hann furðaði sig á þeirri afstöðu að vilja fresta verkefninu. 

„Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að klára það verkefni núna og bíða frekar með að leggja fram fjárfestingarætlun í haust til þess að fá stuðning þingsins við það að fara í þau verkefni? Af hverju í ósköpunum er ekki fyrirsjáanleiki í störfum þingsins þannig að Vegagerðin hafi á traustum grunni að byggja þegar hún tekur ákvarðanir um forgangsröðun hvaða peningar eigi að fara í hvaða hönnun og hvaða framkvæmdir?“ spurði Sigurður. 

Starfsáætlun þingsins tekin úr sambandi

Samgönguáætlun Sigurðar Inga hefur verið til umræðu á Alþingi að undanförnu en þingmenn Miðflokksins hafa meðal annars gagnrýnt áform um uppbyggingu Borgarlínu. Rætt var um samgönguáætlunina í þinginu á fimmtudag en umræðurnar teygðust fram á nótt. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði þingmenn Miðflokksins tefja framgang málsins með málþófi.

Fyrirhugað var að halda umræðunum áfram í vikunni en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti við upphaf þingfundar í morgun að starfsáætlun þingsins hafi verið tekin úr sambandi. Ný starfsáætlun hefur ekki verið lögð fram.