Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sammála um að forsendur lífskjarasamnings séu brostnar

22.06.2020 - 13:59
Mynd:  / 
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, situr á fundum ásamt formönnum 47 öðrum formönnum aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Rætt er um forsendur lífskjarasamnings. Ragnar Þór segir fundarmenn sammála um það að forsendur lífskjarasamnings séu brostnar. Bæði hann og Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, kalla eftir aðgerðum stjórnvalda í þágu þeirra sem misst hafa vinnuna í kórónuveirufaraldrinum. Drífa segir ekki rétt að segja upp lífskjarasamningi í haust.

Drífa segir augljóst að mörg mál standi út af í lífskjarasamningi atvinnulífs og stjórnvalda. 

  • Sektarákvæði vegna kjarasamningsbrota
  • Húsnæðismál 
  • Verðtrygging

„Ýmis ákvæði í yfirlýsingu stjórnvalda frá því í fyrra voru dagsett. Þær dagsetningar eru liðnar. Þannig að skv. orðanna hljóðan þurfum við að fara í endurskoðun í haust. Síðan búum við við nýjan veruleika líka. Við ætlum okkur tíma í dag til að ræða þann veruleika, sérstaklega hækkun atvinnuleysisbóta. Það eru orðið mjög brýnt til að tryggja framfærsluöryggi fólks í þessu ástandi. 

Þurfi að velja milli þess að borga skuldir eða kaupa í matinn

Fréttastofa spurði Ragnar Þór hvort hann héldi að fólk væri reiðubúið að segja sig frá lífskjarasamningnum í haust í því atvinnuástandi sem nú er.

„Í dag er ákveðin hræðsla í þjóðfélaginu og óvissa. Við skulum spyrja frekar þessarar spurningar þegar líður á haustið. Þegar fólk þarf að fara að velja milli þess að borga skuldir eða kaupa í matinn, þá hugsa ég að hljóðið og stemmingin breytist í þjóðfélaginu, ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að koma til móts við kröfur hreyfingarinnar og gera alla vega eina lokatilraun til að standa við þau loforð sem er búið að skrifa undir,“ segir Ragnar Þór. 

Ekki rétt að segja upp samningnum

Drífa sagði í ræðu sinni að hún teldi ekki ráðlegt að segja upp samningum í haust. Mikilvægt sé að þrýsta á stjórnvöld og fá þau til að efna sinn hluta samningsins. 

Ég hef ekki talið ráðlagt að lýsa því yfir að við munum segja upp samningum í haust. Við verðum að vita í þessum hópi hvað við viljum. Fyrir mér er verkefnið skýrt; verja það sem hefur áunnist og knýja fram það sem út af stendur í loforðum stjórnvalda. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi er þó jafnvel enn brýnna er að hækka atvinnuleysisbætur, lengja tekjutengda tímabil bótanna og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. Að öðrum kosti getur staðan orðið grafalvarleg með haustinu og leitt til langvarandi afkomu- og skuldavanda fjölda fólks. Enn fremur er risavaxið verkefni að tryggja að reikningurinn vegna björgunaraðgerða undanfarinna vikna verði ekki sendur almenningi í formi niðurskurðar, gjaldtöku, kaupmáttarrýrnunr eða sölu á opinberum eigum.