Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi hálflömuð

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Fjórir lögreglumenn af þeim sextán sem þurftu að fara í sóttkví eftir að þrír Rúmenar voru handteknir fyrir tíu dögum, eru í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi. Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir sóttkví lögreglumannanna ljúki nú í vikulok. Þeir þrír sem smituðust af kórónuveirunni þurfa þó að vera lengur frá vinnu. Margir lögreglumenn hafa þurft að fresta sumarfríi eða koma inn úr sumarfríi til þess að leysa af hólmi þau sem eru sóttkví.

Tveir karlar og ein kona frá Rúmeníu voru handsömuð vegna gruns um þjófnað úr verslunum á Selfossi. Þegar fólkið hafði verið fært á lögreglustöð kom í ljós að þau höfðu brotið gegn reglum um sóttkví. Konan og annar mannanna reyndust vera með COVID-19.

Sveinn segir að rannsókn málsins sé nánast lokið. Þýfið hlaupi ekki á háum fjárhæðum. Meðfram rannsókninni hafi verið til skoðunar hvort fólki hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Þremenningarnir hafi ekki áður komið við sögu lögreglu hér á landi. Maðurinn sem er með COVID-19 er með íslenska kennitölu og hefur því einhvern tímann búið hér á landi. Hann hafði þó bara verið á landinu í 2-3 daga þegar hann var handsamaður vegna gruns um þjófnað.  

Sveinn segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort fólkið verði ákært.

Stuttu eftir að þremenningarnir voru handsamaðir lýsti lögreglan eftir fleiri Rúmenum sem komu til landsins um svipað leyti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sektað tíu Rúmena fyrir brot gegn reglum um sóttkví. Þá hefur sjö þeirra verið birt ákvörðun Útlendingarstofnunar um frávísun á landamærum. Fjórir komu hingað til lands til þess að sækja vinnu og verður því ekki vísað úr landi.

Þeir sjö sem vísa á úr landi þurfa að gefa sig fram við lögreglu á hverjum degi þangað til þeir verða færðir úr landi.

Fréttinni hefur verið breytt. Fréttastofa fékk í samtali við lögreglu þær upplýsingar að 11 Rúmenar hefðu verið sektaðir fyrir að brjóta gegn reglum um sóttkví. Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í dag kemur fram að 10 hafi verið sektaðir. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi