„Málþóf Miðflokksins er sumarmerkið“

22.06.2020 - 20:02
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
„Rauðmaginn er vormerkið en málþóf Miðflokksins er sumarmerkið, merki um að sumarið er komið. Það afneitar enginn sínu eðli. Það er bara eðlilegt að þeir séu í málþófi eins og alltaf á þessum árstíma,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir flokkinn gerast vinur skattgreiðenda þegar komi að borgarlínu, ekki sé forsvaranlegt að setja 50 milljarða í framkvæmd með óljósa útkomu.

Kolbeinn sagði í kvöldfréttum í sjónvarpi að þingmenn hefðu fullan rétt á að ræða málin en nú hefðu Miðflokksmenn talað í næstum 40 tíma um samgönguáætlun. „Það sem er kúnstugt er að nú séu þeir að tefja það að ýmsar mjög þarfar framkvæmdir fari af stað út um allt land, sem Vegagerðin hreinlega bíður eftir að við klárum þessi mál.“

Bergþór sagði flokkinn gera athugasemd við almenningssamgönguhluta samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. „Við teljum ekki forsvaranlegt að setja 50 milljarða króna í þessa fjárfestingu með jafn óljósa útkomu og raunin er. Við höfum ákveðið að nálgast málið sem vinir skattgreiðandans. Miðað við þá þrengingastefnu og þá tafaleiki sem Reykjavíkurborg hefur spilað hvað varðar uppbyggingu á stofnbrautakerfi Reykjavíkur kjörtímabilum saman, þá lítum við á þetta sem hálfgert lausnargjald sem ríkissjóður þarf að greiða, upp á 50 milljarða, sem er framkvæmd borgarlínu ef málið heldur áfram sem fram horfir.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi