Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lítið tjón þrátt fyrir öfluga skjálfta

22.06.2020 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nokkrar tilkynningar um minni háttar tjón hafa borist í jarðskjálftahrinunni á Norðurlandi. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, gerir ekki ráð fyrir á ekki von á mörgum tilkynningum á meðan upptök skjálftanna eru fjarri landi.

„Við erum búin að fá tvær eða þrjár tilkynningar um minni háttar tjón. Hvers eðlis eru þau tjón? Það er tjón á lausafé þar sem til dæmis hefur fallið stórt sjónvarp um koll,“ segir Hulda Ragnheiður. Eftir er að afla frekari upplýsinga um tjónin en hún býst ekki við mörgum tilkynningum vegna þeirra skjálfta sem orðið hafa. „Vegna þess að þetta er það langt frá landi að það þarf talsvert mikið til að það verði verulegt tjón á fasteignum á meðan við erum ekki að sjá stærri skjálfta en þó þetta sem er komið.“

Sprungur opnast í veggjum

Sveitarstjórar í sveitarfélögum næst upptökum skjálftanna hafa sömu sögu að segja. Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segist ekki hafa fengið beinar tilkynningar um tjón. „En ég hef heyrt af smærra tjóni, svo sem að hlutir hafi dottið úr hillum og myndir af veggjum og svo hef ég líka upplýsingar um einhver tilvik þar sem sprungur hafa opnast á veggjum. Það er líklegt að þar sé um að ræða sprungur sem eru að opnast í gegnum málningu, að þar hafi verið sprungur áður.“

Grjót hefur víða fallið úr hlíðum og þeim tilmælum er beint til ferðafólks að vera ekki á ferð í bröttum hlíðum. Elías segir að í Fjallabyggð hafi fólk varann á sér. „Augljóslega, hér eru byggðir undir bröttum hlíðum þannig að fólk hefur ákveðnar áhyggjur af bæði jarðskjálftum og þá tjóni vegna þeirra og líka bara út af grjóthruni.“

Magnús Geir Eyjólfsson