Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ekki í verkahring forseta að setja eða afnema lög

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
„Það er ekki í verkahring forseta að setja lög eða afnema þau og ég ætla ekki að eigna mér aleinn heiðurinn að því að fyrirkomulaginu varðandi uppreist æru var breytt.“ Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti og forsetaframbjóðandi, sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Guðni kveðst hafa fundið, þegar málið komst í hámæli, að ekki yrði unað við óbreytt ástand. 

„Ég fann í sál og sinni að ég vildi ekki skýla mér á bak við það að forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt og ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum,“ sagði Guðni. Málið hafi verið þess eðlis að stúlkurnar sem brotið var á sættu sig ekki við að þeir sem á þeim brutu hlytu uppreist æru.

„Ég fann að ekki var hægt að una við að þetta yrði áfram óbreytt.“ Hann segist því hafa talið betra að bjóða stúlkunum á sinn fund „og að ég bæði þær afsökunar á að þær þyrftu að þola þetta, að menn sem brutu á þeim fengu það sem þá kallaðist uppreist æru.“ Segist Guðni vita að þær hafi verið sáttar við þá ákvörðun.

Hann segist einnig hafa einsett sér að vinna að því að fyrirkomulaginu yrði breytt líkt og raunin hafi orðið. „Ekki þannig að ég breytti einn lögum, þannig virkar það ekki, en ég lét alla, sem það þurftu að vita, vita að svona yrði ekki framkvæmdin í framtíðinni.“

Ákvæðið er horfið úr íslenskum lögum en Guðni segist ekki ætla að eigna sér heiðurinn af því einn. Hann hafi ekki verið fyrsti forsetinn til að staðfesta uppreist æru. „En ég var sá síðasti.“

Getur ekki sagt Alþingi fyrir verkum

Þegar Guðni er spurður út í þá fyrirætlan mótframbjóðanda síns, Guðmundar Franklíns Jónssonar, að forseti beiti sér í meira mæli en nú og geri embættið pólitískara segir hann að stjórnarskráin koma í veg fyrir slíkt.

Sjálfur vilji hann halda þeirri stefnu sem hann setti sér fyrir fjórum árum. „Ég einbeitti mér að því að segja hvað ég vildi gera, en ekki eyða öllu mínu púðri í að finna að, kvarta undan, fordæma eða gera lítið úr öðrum í framboði.“

Ástæða sé þó til að taka fram að Íslendingar búa ekki við forsetaræði líkt því sem er í Bandaríkjunum. „Þannig að sá eða sú sem hyggur á framboð hér á Íslandi þarf að kunna skil á stjórnskipun Íslands og helst ekki falla í þá freistni að halda að hér geti forseti sagt Alþingi fyrir verkum, sett ráðherra af eða skipað þá eftir eigin geðþótta.“  

Framganga hans varðandi uppreist æru sé dæmi um óbeint áhrifavald forseta. „Hann getur ekki arkað niður á Alþingi og lagt fram lagafrumvarp.“ Mikilvægt sé að forseti standi utan hins pólitíska sviðs og dragi ekki taum eins flokks á kostnað annarra.

Synjunarvaldi beitt að vel ígrunduðu máli

Guðni minnir á að þótt Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti hafi vissulega haft skoðanir hafi hún engu að síður sagt að forseti skipti sér ekki af pólitík. Hún hafi engu að síður tjáð skoðanir sínar og það hafi hann líka gert og með því mögulega haft óbein áhrif.

Hann bendir einnig á að þó að Ólafur Ragnar Grímsson hafi vissulega beitt synjunarvaldinu í forsetatíð sinni verði að horfa til þess að það hafi hann gert þrisvar sinnum á 20 ára tímabili. „Nú eru liðin nær tíu ár frá því að synjunarvaldi var síðast beitt. Þetta er ákvörðun sem er tekin að vel ígrunduðu máli og það þarf að liggja fyrir skýr, yfirgnæfandi vilji kjósenda til að slíkt sé gert.“