Dagleg fundahöld hjá flugfreyjum og Icelandair

22.06.2020 - 17:25
Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda hjá ríkissáttasemjara.
 Mynd: Haukur Holm
Samningafundi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair lauk klukkan fimm síðdegis og hafði þá staðið frá klukkan hálf níu í morgun. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan hálf níu í fyrramálið. Í millitíðinni ætla samninganefndirnar að vinna að ákveðnum atriðum hvor í sínu lagi. Samninganefndirnar ræddu einnig saman allan föstudaginn.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við fréttastofu að samninganefndirnar vinni vel saman og eigi í virku og opnu samtali. Hann sagði að viðræðurnar væru flóknar en að álitaefnunum væri heldur að fækka. 

Fundahöld samninganefnda Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands síðustu daga eru þau fyrstu síðan 20. maí. Þá hafnaði Flugfreyjufélagið tilboði Icelandair. 

Forsvarsmenn Icelandair höfðu stefnt að því að vera búnir að ganga frá öllum samningum og samkomulögum vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrir viku. Það gekk ekki eftir. Þess í stað var tilkynnt fyrir viku að stefnt væri að því að ná því markmiði fyrir næsta mánudag, 29. júní.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi