Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verkfalli hjúkrunarfræðinga afstýrt

21.06.2020 - 23:18
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Verkfalli hjúkrunarfræðinga sem hefjast átti klukkan átta í fyrramálið var afstýrt í kvöld. Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaraviðræðum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins um klukkan ellefu í kvöld. Í fréttatilkynningu frá Aðalsteini Leifssyni, Ríkissáttasemjara, segir að samkomulag hafi náðst um öll meginatriði kjarasamnings, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. Út af standa afmörkuð atriði er varða laun hjúkrunarfræðinga.

Það er mat ríkissáttasemjara að ágreiningurinn á milli samningsaðila sé djúpstæður og verði ekki leystur við samningaborðið, og því var miðlunartillagan lögð fram. Hún inniheldur öll þau atriði sem náðst hefur samkomulag um, og að ágreiningsefnum um launalið verði að hluta vísað í sérstakan gerðardóm. 

Félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra hins vegar greiða svo atkvæði um miðlunartillaga. Atkvæðagreiðslan hefst á hádegi á miðvikudag, 24. júní, og lýkur klukkan tíu að morgni laugardagsins 27. júní. Tillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut ega að máli fyrr en að atkvæðagreiðslu lokinni.

Miðlunartillagan verður kynnt hjúkrunarfræðingum á fundum á Grand Hótel í Reykjavík á morgun og á þriðjudag klukkan 17. Fundunum verður einnig streymt vegna fjöldatakmarkana.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV