Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umræður á Alþingi halda áfram á morgun

21.06.2020 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þingfundur er boðaður klukkan ellefu á morgun, mánudag. Þar verður haldið áfram með umræðu um samgönguáætlun, en fundi var frestað í gærkvöld eftir að málið hafði verið til umræðu í níu klukkustundir. Bróðurpart þess tíma stóðu þingmenn Miðflokksins í ræðustól.

Ýmis fleiri mál eru á dagskrá fundarins, eins og umræða um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um Borgarlínu, langtíma samgöngáætlun til ársns 2034, samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir,almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu, lyfjalög, málefni innflytjenda, atvinnuleysistryggingar, loftslagsmál og fleira. 

Umræða um samgönguáætlun hófst á fimmtudag og stóð fram eftir nóttu. Á þingfundi í gær komu þingmenn Miðflokksins upp hver á fætur öðrum og ræddu um samgönguáætlun hver við annan í hátt í níu klukkustundir þar til forseti þingsins frestaði fundi. Við lok þingfundar lýsti Steingrímu J. Sigfússon yfir vonbrigðum sínum yfir því að þingið sitji á sama stað í dagskránni og þegar þingfundi lauk aðfararnótt föstudags. Benti hann á að í síðari umræðu um samgönguáætlun séu þingmenn Miðflokksins búnir að standa í ræðustól í um 17 klukkustundir og flytja um 160 ræður. Biðlaði hann til Þingmanna Miðflokksins að sofa á þeim upplýsingum og sofa vel.

Þingfundur hefst klukkan ellefu á morgun, mánudag.

Fréttin hefur verið uppfærð. Röng dagsetning var skráð í dagskrá Alþingis. Enginn þingfundur er í dag eins og áður var greint frá.