Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jarðskjálftinn reyndist 5,8

21.06.2020 - 23:04
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Jarðskjálftinn sem reið yfir klukkan 19:07 í kvöld reyndist 5,8 að stærð. Hann varð á öðrum stað en skjálftarnir hingað til. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir hann hafa verið talsvert kraftmeiri en skjálftana í gær. Þrjátíuföld orkulosun verður við hvert heilt stig í mælingum.

Þetta er stærsti skjálftinn sem mælst hefur í skjálftahrinunni um helgina og hafa tæplega þrjátíu eftirskjálftar á bilinu 3 til 3,9 verið skráðir í kjölfarið. Hann var á öðrum stað en hinir, fjær landi og um þrjátíu kílómetra norður af Siglufirði og 35 kílómetra vestur af Grímsey. 

Skjálftinn fannst mjög víða á landinu. „Við fengum tilkynningar frá Akranesi og líka Hellu sem er eiginlega alveg ótrúlegt,“ sagði Kristín í samtali við fréttastofu.

Stærstu skjálftarnir geti komið af stað flóðbylgju

„Við vitum að samfara allra stærstu skjálftum getur komið flóðbylgja. Það er ekki alveg vitað hvað kemur flóðbylgjum af stað en líklegast skýringin er skriður neðansjávar eða hreinlega skriður úr fjöllum,“ segir Kristín. Það borgi sig ekki að vera við strandir og á hafnarsvæðum í stórum skjálftum.

Kristín segir að það sé þó ólíklegt að þessar flóðbylgjur myndi háar öldur en þær séu engu að síður hætta sem þurfi að huga að.  Það sem er hættulegast í stórum jarðskjálftum séu byggingar, innanstokksmunir og grjóthrun í fjalllendi.

Veðurstofu höfðu ekki borist tilkynningar um grjóthrun í kjölfar síðasta skjálfta. Starfsfólk Veðurstofunnar og Náttúrufræðistofnunar fór í vettvangsflug ásamt Landhelgisgæslunni yfir skjálftasvæðið fyrr í dag og sáu engin ummerki um stórfelldar sprungur á svæðunum. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV