Vinsælt bílhræ fjarlægt úr óbyggðum Alaska

20.06.2020 - 08:11
Mynd: EPA-EFE / ALASKA NATIONAL GUARD
Bílhræ var fjarlægt úr óbyggðum Alaska á fimmtudag. Hræið hefur verið vinsæll ferðamannastaður, og hefur nokkrum sinnum þurft að bjarga ferðamönnum þaðan. Staðsetningin varð þekkt eftir að bók og kvikmynd um ungan mann, Christopher McCandless, var gefin út. Hann lést úr hungri í hræinu árið 1992. Bókin kom út árið 1996 og ellefu árum síðar kom kvikmynd, báðar nefndar Into the Wild.

McCandless hélt dagbók á meðan hann var í bílnum. Hann komst ekki til að leita sér hjálpar vegna mikils vatnsflaums í ánni Teklanika, sem rennur þarna nærri. Hann bjó í bílhræinu í 114 daga.

Fyrr á þessu ári varð að bjarga fimm ítölskum ferðamönnum frá hræinu, og í fyrra lést kona frá Hvíta-Rússlandi þar. Þrýstingur á yfirvöld hefur því aukist og ákváðu þau að senda þyrlu eftir bílnum. Hann er í um 40 kílómetra fjarlægð frá næsta þjóðvegi. Ekkert farsímasamband er á staðnum, veðrið getur verið óútreiknanlegt, og þá getur áin í nágrenninu orðið vatnsmikil.

Corri Feige, yfirmaður náttúruauðlindaráðs Alaska, segir í yfirlýsingu að bíllinn verði geymdur á öruggum stað þar til yfirvöld ákveða hvar hann verður settur. Feige sagðist skilja aðdráttarafli bílsins, en vegna hættulegra og kostnaðarsamra björgunaraðgerða, og síðast en ekki síst mannslífa, hafi verið ákveðið að fjarlægja hræið.

Að sögn yfirvalda var bíllinn notaður af verktökum til þess að hýsa starfsmenn sem lögðu veg á svæðinu. Bíllinn var svo skilinn eftir þegar þeirri vinnu lauk árið 1961.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi