Þór/KA á toppinn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þór/KA á toppinn

20.06.2020 - 18:30
Annarri umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta lauk í dag með einum leik. Þór/KA fór á topp deildarinnar eftir öruggan 4-0 sigur á ÍBV norðan heiða.

Bæði lið unnu sína fyrstu leiki í deildinni, Þór/KA vann 4-1 heimasigur á Stjörnunni og ÍBV 4-3 sigur á Þrótti Reykjavík í Vestmannaeyjum. Sigurlið dagsins myndi því fara að hlið Breiðabliks, Vals og Fylkis á toppnum.

18 mínútur voru liðnar af leiknum þegar Margrét Árnadóttir kom heimakonum í forystu en Arna Sif Ásgrímsdóttir tvöfaldaði forystuna aðeins þremur mínútum síðar. Margrét skoraði sitt annað mark þegar tólf mínútur voru til leikhlés og þá varð staðan 4-0 skömmu fyrir leikhléið þegar Karen María Sigurgeirsdóttir komst á blað.

Við tók markalaus síðari hálfleikur en sigur heimakvenna var aldrei í hættu. Þór/KA fer með sigrinum á topp deildarinnar vegna markatölu en liðsins bíður strembið verkefni í næstu umferð. Þór/KA heimsækir Val á Hlíðarenda á miðvikudag en ÍBV fær aftur á móti Stjörnuna í heimsókn sama dag.