Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Samgönguáætlun rædd á Alþingi

20.06.2020 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þingfundur hófst á Alþingi klukkan ellefu í morgun. Samgönguáætlun hefur verið til umræðu og hafa þingmenn Miðflokksins gagnrýnt áform um uppbyggingu Borgarlínu og almenningssamgangna.

Á fimmtudaginn héldu þingmenn Miðflokksins umræðu um samgönguáætlun gangandi fram á nótt. Hún hélt áfram nú fyrir hádegi og stendur enn. Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu áform um Borgarlínu og sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, að verkefnið væri til þess fallið að koma sveitarfélögum í fjárhagsleg vandræði. Þá séu borgarbúar neyddir til að nýta sér almenningssamgöngur.

„Eitt af markmiðunum er einfaldlega að þrengja að umferðinni, þrengja að annarri umferð. Taka eina akrein í hvora átt undir Borgarlínuna, þannig að það sé þrengt að annarri umferð og fólk hreinlega neyðist til að nýta sér Borgarlínuna. Þetta er með öðrum orðum neyslustýring. Mjög sérkennilegt að sjá, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, beita sér fyrir eins grófri neyslustýringu sem í þessu felst.“ sagði Sigmundur á Alþingi í morgun.

Fleiri þingmenn Miðflokks hafa rætt um kostnaðaráætlun við uppbyggingu Borgarlínu og gagnrýnt hversu óljós kostnaðaráætlunin sé og hvar viðbótarkostnaður lendir. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna,  var harðorður í garð þingmanna Miðflokks og sagði þá halda uppi málþófi og halda samgönguáætlun í gíslingu.

„Það er áhugavert að heyra þennan formála, að nú ætli hann að fjalla um Borgarlínu af því að svo fáir hafi heyrt ræður hans hér um nætur sem hann hélt hér um daginn. Ég heyrði þær allar og þær fjölluðu allar um Borgarlínuna. Sem er ótrúlega sérstakt af því að við erum ekkert að fjalla um Borgarlínuna. Það er eins og háttvirtur þingmaður, hliðarveruleiki hans sé orðinn slíkur að hann átti sig ekki á því hvar við erum í dagskránni. Við erum að fjalla um samgönguáætlun. Næsta mál á dagskrá er Borgarlínan. Ef háttvirtir þingmenn Miðflokksins myndu einhverntíma hætta málþófi um samgönguáætlun, þá komumst við í að ræða Borgarlínuna.“ sagði Kolbeinn.

Umræðan stendur enn og verður framhaldið í dag.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV