Ríkissaksóknari samþykkir afsögn

20.06.2020 - 23:53
epa08498861 (FILE) - US Attorney for the Southern District of New York Geoffrey Berman (C), FBI Director Christopher Wray (L, behind), and Deputy US Attorney General Rod Rosenstein (R, behind) participate in a press conference at the Department of Justice in Washington, DC, USA, 20 December 2018 (reissued 20 June 2020). US Attorney General Barr on 20 June 2020 said that US President Trump has fired Manhattan prosecutor Geoffrey Berman.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkissaksóknarinn Geoffrey Berman samþykkti í dag að víkja úr starfi og láta aðstoðrarríkissaksóknara umdæmis síns stöðuna eftir tímabundið. Fyrr í dag tilkynnti William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi rekið Berman. Trump vildi ekki kannast við það þegar fjölmiðlar spurðu hann út í það í dag.

Aðdragandi uppsagnar Bermans er nokkuð langur á skömmum tíma. Í gærkvöldi sendi Barr frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að Berman hafi ákveðið að hætta störfum sem ríkissaksóknari syðra umdæmis New York. Sjálfur kom Berman af fjöllum og sagðist fyrst hafa heyrt af uppsögninni úr fréttatilkynningu dómsmálaráðherrans. Hann kvaðst hvergi á förum, og ekki einu sinni hafa hugsað sér að yfirgefa embættið. Barr sendi Berman bréf í morgun þar sem hann lýsti vonbrigðum sínum með yfirlýsingu hans, og hann hafi því beðið forsetann um að víkja honum úr starfi þegar í stað, sem hann hafi og gert.

Nokkrir tengdir forsetanum til rannsóknar

Berman var ráðinn af Trump fyrir um tveimur og hálfu ári. Síðan þá hefur Berman verið með nokkra einstaklinga tengda Trump til rannsóknar. Embætti hans ákærði til að mynda lögmann Trumps, Michael Cohen, og rannsókn er í gangi á málum tengdum Rudy Giuliani, persónulegum lögmanni Trumps. Þá greinir Guardian frá því að á borði Bermans sé einnig rannsókn á tengslum Andrésar prins og Jeffrey Epstein.

Fleiri fengið að fjúka

Síðustu mánuði hafa nokkrir innri rannsakendur fengið að fjúka úr Bandaríkjastjórn. Yfirmenn innri rannsóknar í varnarmálaráðuneytinu, innan leyniþjónustunnar og hjá heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu hafa verið reknir, auk starfsmanns heilbrigðisyfirvalda sem gerði athugasemdir við að Trump væri að upphefja meðferðir við COVID-19 sem væri ekki sannað að bæru árangur. Þá var yfirmaður innri rannsókna utanríkisráðuneytisins rekinn í síðasta mánuði skömmu eftir að rannsókn hófst á utanríkisráðherranum Mike Pompeo.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi