Mótframbjóðandi Lukashenko handtekinn

20.06.2020 - 06:14
epa08496396 Police officers wearing protective face masks detain a protester during a rally in Minsk, Belarus, 19 June 2020. The presidential campaign has kicked off in Belarus, with the election scheduled for 09 August 2020.  EPA-EFE/TATYANA ZENKOVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælendur og blaðamenn voru handteknir í Hvíta-Rússlandi í gær þar sem hundruð komu saman til að mótmæla framboði Alexanders Lukashenko til endurkjörs í embætti forseta. Hann hefur setið við stjórnvölinn í landinu síðustu 26 ár, og vonast til þess að vera kjörinn til síns sjötta kjörtímabils. 

Mótframbjóðendur Lukashenkos mættu á mótmælin til þess að safna undirskriftum fyrir framboð sín. Safna verður minnst 100 þúsund undirskriftum til þess að framboðið teljist gilt. Gærdagurinn var síðasti dagurinn til undirskriftasöfnunar. Lögregla stöðvaði safnanir frambjóðenda um sjö-leytið í gærkvöld að staðartíma í höfuðborginni Minsk. Um tíu voru handteknir, þar á meðal blaðamenn. Einn þeirra var í beinni útsendingu á útvarpsstöðinni Radio Free Europe þegar hann var handtekinn.

BBC hefur eftir hvítrússneskum fjölmiðlum að lögregla hafi hótað því að beita mótmælendur afli í borginni Mahilyow, og í Homel var mótmælendum sagt að samkoma þeirra væri ólögleg. 

Mótframbjóðandi sagður strengjabrúða erlendra afla

Mótmælin voru haldin degi eftir að yfirvöld handtóku Viktor Babaryko, þann frambjóðanda sem helst er talinn ógna áframhaldandi setu Lukashenko í embætti. Babaryko var yfirmaður rússneska Gazprom-bankans í Hvíta-Rússlandi áður en hann skellti sér í framboð. Lukashenko sagði í gær að stjórnvöld hafi orðið vör við að pólitísk öfl bæði í vestri og austri væru að reyna að veikja stoðir hvítrússnesku stjórnarinnar. Hann sagði að bæði hafi gríman verið tekin af strengjabrúðum í Hvíta-Rússlandi, auk þess sem búið sé að afhjúpa þá sem stýra brúðunum að utan. Lukashenko sagði hafa verið stefnt að byltingu á borð við þá sem varð í Úkraínu árið 2014.

Rannsókn nýhafin

Lukashenko hefur ekki tilgreint hvaða ríki hann telur hreyfa strengi brúðanna. Þegar Babaryko var handtekinn greindi hátt settur embættismaður þó frá því að honum væri stýrt af Rússum.

Yfirvöld hófu nýverið rannsókn á meintum glæpum stjórnenda Gazprom-bankans í Hvíta-Rússlandi. Babaryko er sakaður um fjármálaglæpi, og sonur hans og kosningastjóri, Eduard Babaryko, hefur verið handtekinn vegna gruns um skattsvik. 

Framganga stjórnar Lukashenkos hefur verið gagnrýnd víða. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir handtöku Babarykos pólitíska ákvörðun og kallar eftir því að hann verði leystur úr haldi. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi