Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hjúkrunarfræðingar mættir í Karphúsið

20.06.2020 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samningafundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins hófst aftur í morgun klukkan 9:30.

„Við leggjum okkur öll fram. Fundurinn í gær var þungur og staðan mjög snúin,“ sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við Fréttastofu á leið á fundinn.  

Hann segir viðræðurnar fara fram við erfiðar kringumstæður en að allir séu vel undirbúnir og vinni vel saman. „Það er greinilegt að samningsaðilar eru meðvitaðir um þá ábyrgð sem þeir hafa.“

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, tók í sama streng í morgun. „Við höfum trú á að við getum enn reynt að þoka viðræðunum áfram. Það er okkar sameiginlegi skilningur að á meðan við getum haldið samtalinu gangandi, þá leggjum við allt í sölurnar. Það er svo mikið í húfi og mjög slæmt fyrir heilbrigðiskerfið að missa hjúkrunarfræðinga í verkfall.“

Hjúkrunarfræðingar hafa boðað til verkfalls á mánudagsmorgun, þann 22. júní, klukkan 08:00.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV