Heilög stund að opna pizzakassann

Mynd: RÚV / Menningin

Heilög stund að opna pizzakassann

20.06.2020 - 11:37

Höfundar

„Ég er alveg viss um að þetta fólk er að fara leggja hönd á plóg í listalífi Íslands,“ segir Hekla Dögg Jónsdóttir, leiðbeinandi útskriftarnema í myndlist frá Listaháskóla Íslands sem sýna nú verk sín á sýningunni Fararsnið á Kjarvalsstöðum.

Tuttugu nemendur eiga verk á sýningunni og notast við ólíkar aðferðir og efnivið. „Við erum að sjá risastór umfangsmikil verk niður í alveg mjög smá, fíngerð verk sem eru eins og andrúmsloft,“ segir Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, sýningarstjóri. Að mati Heklu Daggar eru vensl milli viðfangsefna. „Það er ákveðinn sameiginlegur þráður en á sama tíma eru þau mjög fjölbreytt og svolítil speglun á sjálfan sig. Þau eru náttúrulega að móta sína eigin rödd sem er mikilvægast, held ég.“ Kristín Dagmar tekur í sama streng. „Þarna er einhver sjálfsskoðun og hún kemur fram með ólíkum hætti.“

Fylgja hverri hreyfingu

Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunni er Alexander Húgó Gunnarsson sem gerði hús með hreyfanleg augu. „Það er myndavél sem skynjar hreyfinguna í rýminu og þau leitast við að horfa á hana. Mig langaði að búa til eitthvað sem væri bara til og myndi bregðast við því sem er í gangi í sýningarrýminu, að það sé til einhver díalógur á milli verksins og áhorfandans,“ segir hann.

Af útskriftarsýningu LHÍ 2020 á Kjarvalstöðum
 Mynd: RÚV - Menningin

Silfrún Una Guðlaugsdóttir og Tara Njála Ingvarsdóttir fluttu gjörninginn Floo á opnunardaginn þar sem þær flugu af þaki Kjarvalsstaða. „Við vorum svolítið að skoða eiginleika fugla. Inni erum við með hljóðinnsetningu og vídjóinnsetningu og núna erum við að taka fyrir flug,“ segir Tara Njála. Þær vinna þvert á miðla. „Við vinnum saman sem dúó og finnst rosalega gaman að blanda öllu saman,“ segir Silfrún Una. Að sögn Töru Njálu ætla þær ekki að einskorða sig við gjörninga í framtíðinni. „Það virðist oft samt verða aðal, einhver þráður allavega.“ „Svo grípum við í allt hitt og blöndum því saman,“ segir Sifrún Una. 

Heilög Domino's surprise

Heilagleiki í nútímanum er Einari Lúðvík Ólafssyni útskriftarnema hugleikinn. „Þetta hafa náttúrulega verið svolítið skrítnir tímar undanfarið og ég held að verkin mín séu að sama bragði dálítið skrítin. Þau eru öll máluð í mismunandi stíl og með alls konar referensa í poppmenningu, listasöguna og trúarleg hugtök, en svo tengir sjóndeildarhringurinn þau öll saman,“ segir hann. „Ég var mikið að hugsa um hvað sé helgimynd í dag, hvað er heilagt í mínu lífi og hvað helgistund. Það kom ekkert annað til hugar en þegar ég opna Domino's surprise á megaviku þannig að ég ákvað bara að fara alla leið og mála það.“

Af útskriftarsýningu LHÍ 2020 á Kjarvalstöðum
Myndin er frá útskriftarsýningu Listaháskólans á Kjarvalsstöðum.  Mynd: RÚV - Menningin

Verk Aniku Baldursdóttur nefnist Menda, þar sem hún fjallar um Straumfjarðará og ferðalag sitt um hana, bæði listrænt og bókstaflegt. „Ég gekk í vöðlum og vöðlujakka 12 kílómetra. Ég gekk alla ána í vöðlunum og jakkanum og hugsaði undir lokin „þetta er náttúrulega bara verkið“,“ segir hún. Að mati Aniku blandast verk skólasystkinanna vel saman á sýningunni. „Þetta er náttúrulega rosalega gaman því að við erum búin að vinna öll í sitthvoru horninu og erum loksins núna að sjá hvað við erum búin að vera að gera síðustu vikur. Mér finnst vera að myndast svolítið góð heild. Spennandi að sjá þegar allt er orðið tilbúið, búið að hengja allt upp og öll hljóð saman komin.“

 

Af útskriftarsýningu LHÍ 2020 á Kjarvalstöðum
 Mynd: RÚV - Menningin
Af útskriftarsýningu LHÍ 2020 á Kjarvalstöðum
 Mynd: RÚV - Menningin

Tengdar fréttir

Menningarefni

Djörf og óvenjuleg ákvörðun Listahátíðar í Reykjavík

Hönnun

Listaháskólinn og Litla-Hraun í eina sæng

Menningarefni

Fríða Björk endurráðin rektor Listaháskólans

Lærði að vera sexý í listaháskólanum