Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð og íbúi á Siglufirði, segir að fólk hafi þust út á götu og leirtau hafi brotnað í skjálftanum sem varð um hálf átta í kvöld.
Skjálftinn var af stærðinni 5,6 samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum Veðurstofunnar og fylgdi fjöldi skjálfta allt upp í 3,8 í kjölfarið.
Jörð skal í um hálfa mínútu
„Skjálftinn rúmlega þrjú í dag var svipaður og öflugasti skjálftinn 2012. En þessi sem varð klukkan hálf átta var alveg rosalega öflugur. Ég hef ekki fundið svona öflugan skjálfta fyrr,“ sagði Ámundi í samtali við fréttastofu.
„Fólk var komið út á götu hérna í kring og svo fór eitthvað úr hillum og brotnaði. Ég gæti trúað því að þetta hafi verið upp undir hálf mínúta. Það voru sveiflur í þessu en þetta tók ótrúlega langan tíma.“