Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gætu þurft að hafna helmingi allra umsókna um nám

Háskólinn á Akureyri þarf að óbreyttu að hafna helmingi allra umsókna um nám við skólann í haust. Rektor er vongóður um að stjórnvöld bregðist við með auknu fjármagni. Hátt í 600 milljónir króna vantar upp á.

Háskólanum á Akureyri bárust 2.033 umsóknir um skólavist næsta skólaár og fara umsóknir yfir tvö þúsund þriðja árið í röð. Nú er aðeins hægt að taka á móti um þúsund nýjum nemendum og þarf að forgangsraða umsóknum.

„Við erum einfaldlega komin á þann stað að miðað við þau námspláss sem við fáum úthlutað frá stjórnvöldum, þurfum við fleiri ef við eigum að geta tekið á móti fleiri nemendum. Við getum sagt að þetta séu 5-600 milljónir sem skólinn þarf á að halda til þess að við getum gert þetta. En við þurfum að fá þær á næsta fjárlagaári og varanlega eftir það,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Eyjólfur segir að staðan nú hafi ekki áhrif á þá sem voru við nám í vetur, en þeir sem voru að ljúka grunnnámi og ætla í meistaranám gætu fallið á milli. Þegar er búið að tryggja fjármagn til að fjölga nemum í hjúkrunarfræði.

Einnig metfjöldi umsókna í HÍ og HR

Sömu sögu er að segja í öðrum háskólum. Metfjöldi umsókna barst Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur sagst vonast eftir stuðningi stjórnvalda vegna þess. Eyjólfur segist vera í viðræðum við stjórnvöld og er bjartsýnn á viðbrögð. Fjármagnið þarf fyrst og fremst að nota til að ráða fleira starfsfólk svo hægt sé að uppfylla kröfur fleiri nemenda en áður.

„Stjórnvöld hafa sýnt það núna í kófinu að þau eru reiðubúin til framkvæmda. Vonandi næst samkomulag um þetta, við þurfum að svara nemendum fyrir lok júnímánaðar. Mín von er að við náum góðu samtali og samkomulagi fyrir þann tíma,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.