Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Dátt djassinn dunar

Mynd með færslu
 Mynd: Piparkorn

Dátt djassinn dunar

20.06.2020 - 10:22

Höfundar

Kryddlögur er fyrsta breiðskífa djasshljómsveitarinnar Piparkorn og plata vikunnar á Rás 2.

Piparkorn er samansafn ungra hljóðfæraleikara sem stundað hafa djassnám saman og hafa þau leikið staðallög af þeim toga síðastliðin þrjú ár. Kryddlögur, fyrsta plata sveitarinnar, er fjölbreytt að sniði. Saman fara ósungnar stemmur og sungnar og textar ýmist á ensku eða íslensku. Magnús Þór Sveinsson (píanó) og María Gyða Pétursdóttir (söngur) semja flest laganna en allir í sveitinni leggja þó sitt til laganna og setja svip á þau. Aðrir í sveitinni eru þeir Guðjón Steinn Skúlason (saxafónn), Gunnar Hinrik Hafsteinsson (gítar, bassi), Þorsteinn Jónsson (trommur) og Davíð Snær Sveinsson (bassi). Platan er tekin upp í Stúdíói Sýrlandi undir handleiðslu Þorsteins Gunnars Friðrikssonar. Platan er lokaverkefni hans í hljóðtækni í Tækniskólanum. Hann sá líka um eftirvinnslu og hljóðblöndun en Jóhannes Gauti Óttarsson vélaði um söng.

Fínt

Þetta er fínasta plata verður að segjast. Fínasti frumburður. Hjólið er engan veginn fundið upp hérna (enda varla tilgangurinn) en á sama tíma kemst hópurinn giska skammlaust frá sínu. Að einhverju leyti má líta á þetta sem hálfgert nemenda- eður útskriftarverkefni, það er það formlega séð út frá upptökumálum og um leið er mannskapurinn að stíga sín fyrstu skref í útgáfu á frumsömdu efni. Og er það vel. Lögin eru öll sem eitt með hefðbundnu sniði, tilbrigði við þægilegt djasspopp. María syngur vel, allar fraseringar góðar, minnir dálítið á GDRN í „Hvað er það“. Spilamennska öll fín og upptaka sömuleiðis. Best tekst þeim upp í hægum lögum, það er eins og ákveðin dýpt náist þá. Hraðari lögin („Sunny Days“ t.d.) eru meira eftir bókinni.

Ungæði

Eins og nærri má geta, platan er um margt ungæðisleg og það heyrist vel að hér er fólk að stíga sín fyrstu skref. En þó að skrefin séu sumpart hikandi eru þau um leið merkilega örugg. Þetta er efnilegur hópur og vonandi fær maður að heyra meira frá þessu fólki, hvort heldur saman eða í sitt hvoru lagi.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt