Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um eitt prósent mannkyns á flótta

Mynd með færslu
Afganar á heimleið frá Íran. Mynd:
Nærri áttatíu milljónir, um eitt prósent mannkyns, eru á flótta í heiminum, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Fjöldi þeirra sem hafa neyðst til að flýja heimili sín hefur tvöfaldast síðastliðinn áratug.

Flóttafólki og hælisleitendum fjölgar um níu milljónir milljónir milli ára, en það er mesta fjölgun frá því flóttamannastofnunin hóf að halda utan um fjölda þeirra sem flýja stríð, hamfarir, ofbeldi eða ofsóknir. Fólki á flótta hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2012. Flestir, nærri 46 milljónir, eru á hrakhólum innan eigin lands, 26 milljónir hafa leitað handan landamæranna og 4,2 milljónir eru skráðir hælisleitendur. Flestir koma frá fimm ríkjum, Sýrlandi, Venesúela, Afganistan, Suður-Súdan og Mjanmar, um 55 milljónir af áttatíu.

Covid-19 stöðvað flest en ekki stríðsátök

Filippo Grandi, yfirmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, kynnti niðurstöður skýrslunnar í morgun. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn hafi haft mikil áhrif á stöðu flóttamanna. Ríki hafi lokað landamærum um tíma og nú sé mun erfiðara en áður að fá hæli. Kórónuveiran virðist hafa stöðvað flest, en þó ekki allt. Grandi segir ekkert lát á stríðsátökum, en eftir níu ára átök í Sýrlandi eru rúmar þrettán milljónir á flótta, nærri einn sjötti af heildarfjöldanum. Hann segir erfitt að leysa þennan vanda því alþjóðasamfélagið sé klofið og komi sér ekki saman um lausnir. Það sé því fátt sem bendi til þess að fólki á flótta fækki, og fjöldi þeirra sem neyðast til að flýja heimili sín haldi áfram að aukast ár frá ári.  

Flóttamenn peð í pólitísku þrátefli

Alþjóðasamfélaginu gengur illa að koma sér saman um lausnir en deilt er um aðferðir til að takast á við vandann bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum vilja helst ekki taka á móti flóttafólki og innan Evrópu er reynt að stemma stigu við komu flóttafólks mjög víða. Tyrkir og stjórn Evrópusambandsins hafa tekist á um hvert þeir sem flýja stríð í Sýrlandi og leita til Evrópu eigi að fara. Fyrr á þessu ári hættu Tyrkir að hindra för flóttafólks yfir til Grikklands. Grísk stjórnvöld svöruðu með því að senda óeirðalögreglu á vettvang. Lögregla skaut meðal annars táragasi að flóttamönnum.

Samkomulag hefur verið gildi frá 2016 milli Tyrkja og Evrópusambandsins um að Tyrkir reyni að hemja straum flóttamanna til Evrópusambandsríkjanna en ásakanir gengu á víxl í vor um hver eða hverjir hafi rofið það. Samkomulagið fól í sér að Tyrkir skyldu halda flóttamannastrauminum í skefjum og fengju fyrir það 6 milljarða evra frá Evrópusambandinu til þess að standa straum af kostnaði við veru sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi. Tyrkjum var enn fremur lofað að aðildarumsókn þeirra að Evrópusambandinu yrði sett í forgang og að tyrkneskir ríkisborgarar þyrftu ekki lengur vegabréfstáritun þegar þeir ferðuðust til ríkja Evrópusambandsins.