Þrír lögreglumenn smitaðir

18.06.2020 - 23:21
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Þrír þeirra lögreglumanna sem höfðu afskipti af grunuðum þjófum sem komu hingað til lands í síðustu viku hafa greinst með COVID-19 smit. Tveir af þremur grunuðum þjófum greindust með veikina skömmu eftir handtöku þeirra síðastliðinn föstudag. Fólkið hafði skömmu áður komið til landsins frá Bretlandi og sagst ætla í sóttkví en gerði ekki. Á annan tug lögreglumanna fór í sóttkví eftir að upp komst um veikindi fólksins.

Fyrr í vikunni var staðfest að lögreglukona hefði greinst með COVID-19 eftir handtöku fólksins. Nú er komið í ljós að tveir lögreglumenn til viðbótar smituðust einnig. Vísir greindi frá þessu í kvöld og hafði eftir Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra. 

Fram kom í fréttum RÚV fyrr í dag að ellefu Rúmenar hafa verið sektaðir fyrir að brjóta gegn sóttvarnalögum og hefur verið ákveðið að vísa tveimur þeirra úr landi. Fleiri gætu farið sömu leið. Alls sæta nú fjórtán Rúmenar gæslu í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík. Einn þeirra sem lögreglan handtók er með íslenska kennitölu. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi