Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þingmenn Miðflokksins andmæla borgarlínu

18.06.2020 - 20:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingmenn Miðflokksins hafa gagnrýnt mjög áform um uppbyggingu borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, í umræðum um samgönguáætlanir fyrir næstu fjórtán árin. Þeir hafa sagt að verkefnið sé dýrt, ólíklegt til að skila árangri og þrengi að annarri umferð en almenningssamgangna. Þeir hafa einnig fundið að því að ekki sé lögð meiri áhersla á Sundabraut. Þingmaður Samfylkingarinnar sagði ræður Miðflokksmanna keimlíkar, líkt og þeir væru í fílabeinsturni að ræða málin.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði að borgarlína myndi ekki hjálpa til ef rýma þyrfti höfuðborgarsvæðið í flýti vegna náttúruhamfara. Þá væri betra að sjá meiri metnað í uppbyggingu vegakerfisins. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, mælti með því að Miklubraut/Hringbraut og Sæbraut yrði breytt í einstefnugötur, hvorri í sína áttina og þá væru margar akreinar í hvora átt. Slíkar breytingar sagði hann að myndu ekki kosta mikið.

Þingmenn Miðflokksins eru iðulega flestir eða allir í ræðustól eða á mælendaskrá hverju sinni.

Róa fram í gráðið í fílabeinsturni

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ræður Miðflokksmanna væru keimlíkar. „Það er sem ég sjái þá saman sitjandi í hring, gjörvallann þingflokkinn, uppi í fílabeinsturni þar sem er róað fram í gráðið og sagt: þetta er alltof dýrt, þeir veita ekkert hvað þeir eru að gera, hvað kostar þetta eiginlega? Þeir sjá ekkert út því það er móða á glerinu.“ Guðjón sagði að sér þætti sem Miðflokkurinn væri að ala á því að undirbúningurinn væri hroðvirknislegur. Hann sagði að málið hefði verið ítarlega rannsakað. Guðjón sagði að verið væri að fjárfesta fyrir framtíðina, af borgarlínu yrði gríðarlegur ábati til langrar framtíðar. Guðjón sagði að ekki væri hægt að halda áfram með sama hætti og hefur verið gert, hann sagði að ef áfram yrði dekrað eins mikið við einkabílinn og verið hefði gert þá yrði það mjög dýrt og leysti ekki vandann.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, svaraði honum. Hann sagði að borgarstjórnarmeirihlutinn hefði gert tilraun til að leggja alla áherslu á almenningssamgöngur síðustu níu ár en að hún hefði mistekist. „Höfuðborgarsvæðið er búið að vera í herkví.“

Ófremdarástand í Reykjavík

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í Reykjavík hefði verið framkvæmdastopp vegna samkomulags ríkisins og borgarinnar um að veita ekkert fé til framkvæmda heldur veita meira fé en áður til almenningssamgangna. Með þessu hefði átt að auka hlut almenningssamgangna. „Í Reykjavík ríkir ófremdarástand í samgöngumálum. Það er mjög brýnt að ráðist verði í vegaframkvæmdir í Reykjavík.“ Hún sagði að því miður væri lítið gert ráð fyrir framkvæmdum í Reykjavík í samgönguáætluninni.

Sigríður sagði borgarlínu dýra og óútfærða og sagði ekki við það unað að ekki yrði ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir í borginni.