Stytta verður fjarlægð af háskólabyggingu í Oxford

18.06.2020 - 03:24
Erlent · Bretland · Evrópa
A statue of Cecil Rhodes, the controversial Victorian imperialist who supported apartheid-style measures in southern Africa stands mounted on the facade of Oriel College in Oxford, England, Wednesday, June 17, 2020. The governing body of Oriel College are meeting today to discuss the future of the statue. (AP Photo/Matt Dunham)
 Mynd: AP
Stjórnendur Oriel háskólans í Oxford tilkynntu í gær að þeir vilji fjarlægja styttu af Cecil Rhodes sem stendur á húsnæði skólans. Þrýst hefur verið á yfirvöld að fjarlægja styttuna, þar sem hún standi fyrir nýlendustefnu Breta og kynþáttafordóma. 

Þrýstihópur um að styttan verði tekin niður lýsti því yfir í gærkvöld að tilkynning stjórnendanna færði þeim von. Mótmælum gegn henni linni þó ekki fyrr en hún verði felld. Háskólinn segir það geta tekið nokkurn tíma að fjarlægja styttuna. Til þess þurfi ráðgjöf um skipulag og leyfi til þess. 

Rhodes var stjórnandi nýlendu Breta syðst í Afríku, þar sem nú er Suður-Afríka. Stórt landsvæði var meira að segja nefnt eftir honum, Rhodesía, vegna vinsælda hans meðal evrópskra landnema í álfunni. Hann vildi stækka breska heimsveldið, þar sem hann taldi kyn engilsaxa stórfenglegra en annarra. „Ég trúi því að við séum fremsti kynþáttur veraldar, og því fleiri svæði sem við tökum yfir því betra er það fyrir mannkynið," er haft eftir honum í erfðaskrá og eftirmála hans.

Víða í heiminum hefur verið kallað eftir því að styttur af vestrænum körlum sem versluðu með þræla, tóku virkan þátt í nýlendustefnu og voru fordómafullir í garð annarra en hvítra verði felldar. Í Antwerpen í Belgíu var stytta af Leopold II konungi felld af yfirvöldum, og í Bristol í Bretlandi tóku mótmælendur sig til og rifu niður styttu af þrælasalanum Edward Colston.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi