Stórleikur á Selfossi í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stórleikur á Selfossi í kvöld

18.06.2020 - 13:15
Fjórir leikir eru á dagskrá er önnur umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta hefst í kvöld. Flestra augu verða á leik Selfoss við Breiðablik á Selfossi klukkan 19:15.

Bikarmeistarar Selfoss byrjuðu tímabilið á að vinna Val að Hlíðarenda í leik meistara meistaranna og hafa gefið út að stefnan sé sett á Íslandsmeistaratitilinn. Íslandsmótið hófst hins vegar ekki eftir áætlun er liðið laut í gras fyrir Fylki 1-0 í Árbæ síðustu helgi.

Breiðablik rétt missti af titlinum í fyrra í hendur Vals eftir að hafa farið taplaust í gegnum mótið og hóf nýtt tímabil á öruggum 3-0 sigri á nýliðum FH síðustu helgi. Breiðablik getur því komið sér í góða stöðu strax í upphafi móts með sigri í kvöld en Selfoss þarf á sigri að halda eftir tapið fyrir Fylki.

Þrír aðrir leikir eru á dagskrá í kvöld. Fylkiskonur geta viðhaldið góðri byrjun sinni er liðið heimsækir KR í Vesturbæ Reykjavíkur en KR tapaði fyrir Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik. Valskonur heimsækja nýliða Vals og þá mætast Stjarnan og FH í Garðabæ. Allir leikirnir fjórir hefjast klukkan 19:15.

Önnur umferðin klárast með leik Þórs/KA og ÍBV á Akureyri á laugardag.

Leikir dagsins:

19:15 KR - Fylkir
19:15 Selfoss - Breiðablik
19:15 Stjarnan - FH
19:15 Þróttur R. - Valur