Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skiltum skipt út fyrir listaverk í Garðabæ

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Skiltum skipt út fyrir listaverk í Garðabæ

18.06.2020 - 17:27

Höfundar

Nýtt útilistaverk sem stendur við bæjarmörk Garðabæjar á Arnarneshálsi var vígt í dag. Listaverkið verður nýtt aðkomutákn bæjarins og er ætlunin að sambærileg tákn komi í stað skilta með nafni Garðabæjar við öll bæjarmörk.

Í tilkynningu frá Garðabæ segir að afhjúpun listaverksins sé stórt skref enda hafa útilistaverk ekki verið áberandi í Garðabæ til þessa.

Aðkomutáknið sem vígt var í dag er skúlptúr sem vann hugmyndasamkeppni Garðabæjar og Hönnunarmiðstöðvar Íslands, en efnt var til hennar á fjörutíu ára afmæli kaupstaðarins árið 2016. 

Teiknistofan Tröð átti vinningstillöguna en hún var unnin af Sigríði Magnúsdóttur, Hans-Olav Andersen, Magnúsi Andersen og Nínu Solveigu Andersen. 

Til stendur að koma listaverkinu upp á fleiri stöðum í bænum. Hugsanlegt er að aðkomutáknið verði aðlagað staðsetningu hverju sinni. Í tilkynningunni segir að hugmyndin bjóði upp á ólíka útfærslu, til dæmis mismunandi efnivið og stærð. 

Verkið er fléttað saman úr þremur jafnstórum römmum svo úr verður þrívíður skúlptur. Í rökstuðningi dómnefndar um vinningstillöguna segir meðal annars:

„Í verkinu felast margræðar skírskotanir til samfélags fólks og náttúru þar sem einfalt form er sett saman á listrænan hátt svo það myndar flókið samspil. Verkið getur vísað til ólíkra sjónarhorna og það rammar inn síbreytilega náttúru innan bæjarfélags sem er í sókn og vexti. Auðkennismarkið er óvænt og djörf útfærsla sem getur dregið til sín athygli og sómt sér vel í landslagi.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Samkeppni um útilistaverk í Vesturbæ Reykjavíkur

Reykjavíkurborg

Borgin kaupir útilistaverk Jóhanns Eyfells