Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segja óreiðu í málum hjúkrunarheimila

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkur sveitarfélög hafa ýmist ákveðið eða undirbúa að slíta samninga við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila. Meðal þeirra er Akureyrarbær, sem telur uppsafnaða vöntun á fé frá ríkinu til að geta rekið hjúkrunarheimili í bænum nema rúmum milljarði. Bærinn hefur sagt upp samningi við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila og það hefur Vestmannaeyjabær einnig gert.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að halli á rekstri hjúkrunarheimila á Hornafirði í fyrra og í ár sé um hundrað milljónir. Bæjarráð Fjarðabyggðar hyggst senda heilbrigðisráðuneytinu kröfubréf vegna hallarekstrar hjúkrunarrýma á liðnum árum.

Í frétt Morgunblaðsins segir að málið hafi verið rætt á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Óreiða sé í þessum málaflokki, skortur sé á stefnumótun og ríkið neyti aflsmunar í samskiptum við sveitarfélög og þvingi þau markvisst til að bera rekstrarhalla vegna hjúkrunarheimilanna sem fari vaxandi. Um sé að ræða atlögu að fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélaganna og þeirri þjónustu sem þeim sé skylt að veita samkvæmt lögum.

Vinna, sem farið hafi verið í fyrir nokkrum árum um að undirbúa flutning þessa málaflokks frá ríkinu til sveitarfélaganna hafi verið sett til hliðar. 

Í frétt Morgunblaðsins segir að á fundi bakhóps sveitarfélaganna sem haldinn var í byrjun mánaðarins hafi verið skorað á sveitarfélögin að standa saman í þeirri stöðu sem upp væri komin. Sú hugmynd hafi verið reifuð að þau sveitarfélög, sem hafi slitið samningum við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila, myndi hóp.

Í fyrradag féll dómur Hæstaréttar í máli Garðabæjar gegn ríkinu, en bærinn hafði krafið ríkið um nokkur hundruð milljónir vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Ísafoldar, en framlög ríkisins með daggjöldum nægðu ekki fyrir rekstrarkostnaði heimilisins.