Segir skimun ganga vel þrátt fyrir nokkra hnökra

18.06.2020 - 14:37
Mynd: Skjáskot / RÚV
Framkvæmd sýnatöku og skimunar á farþegum sem koma hingað til lands hefur gengið nokkuð vel þrátt fyrir einhverja agnúa og hnökra, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann sagði unnið að því að bæta leiðir til að koma upplýsingum um niðurstöðu úr skimunum. Tveir af um þrjú þúsund farþegum sem hafa komið til landsins frá því á mánudag voru með virkt smit. Þórólfur sagði að það gæti ekki talist mjög hátt hlutfall.

Frá mánudegi hafa tæplega 3.000 farþegar komið til landsins og sýni verið tekin úr um 2.400. Af þeim hafa sex greinst með veiruna. Tveir þeirra eru taldir vera smitandi og eru því í einangrun. Fjórir eru með gamalt smit og því ekki smitandi. Um 20 einstaklingar hafa þurft að fara í sóttkví vegna þessara smita. Enginn hefur greinst með innanlandssmit frá því sýnataka hófst á landamærunum á mánudag.

„Af þessum 3.000 ferðamönnum, eða 2.400 sýnum, hafa tveir greinst með smitandi COVID og það verður að teljast að þetta sé ekki mjög hátt hlutfall,“ sagði Þórólfur í dag. „Ég held að þessi skimun sýni ágæti sitt í að finna þessa einstaklinga og sýni einnig fram á ágæti þess að geta brugðist hratt við og beitt einangrun og sóttkví eins og við höfum gert allan tímann.“

„Ég held að á þessari stundu sé of snemmt að draga víðtækar ályktanir af skimuninni. Við verðum að láta lengri tíma líða. Við höfum talað um að við þurfum að gera þetta vel upp eftir tvær vikur,“ sagði Þórólfur. „Ef eitthvað bregður út af og eitthvað óvænt kemur upp á fyrir þann tíma þá munum við að sjálfsögðu endurskoða það sem við erum að gera og það höfum við sagt allan tímann.“

„Framkvæmd skimunarinnar á Keflavíkurflugvelli og landamærum gengur hins vegar bara nokkuð vel. Það eru ennþá einhverjir agnúar og hnökrar sem hafa komið upp sem við erum að laga,“ sagði Þórólfur. „Helstu agnúar þessa stundina eru að það eru ákveðin vandamál í því að koma upplýsingum til einstaklinga um þeirra niðurstöður úr skimunum. Það helgast af tæknivandamálum og það er verið að vinna í því að laga það. Vonandi tekst okkur á næstu dögum að gera þetta eins straumlínulagað og þægilegt og gott í notkun eins og mögulegt er.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi