Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsleikarnir geti hafist í fyrsta lagi 17. ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Erla - RÚV

Heimsleikarnir geti hafist í fyrsta lagi 17. ágúst

18.06.2020 - 11:45
Heimsleikarnir í Crossfit frestast að minnsta kosti um þrjár vikur en nánari dagsetning mun liggja fyrir í næstu viku samkvæmt tilkynningu skipulagsaðila leikanna. Leikarnir fara fram í skugga vandræða innan Crossfit-samfélagsins.

Crossfit sendi frá sér tilkynningu í nótt þar sem fram kemur að leikarnir geti í fyrsta lagi farið fram þann 17. ágúst. Kórónuveiran er enn í sókn víðsvegar um Bandaríkin.

„Vegna ferðatakmarkana og aðstæðna sem við höfum ekki stjórn á, er þörf á að færa dagsetningu CrossFit heimsleikanna til. Leikarnir geta hafist 17. ágúst hið fyrsta. Frekari upplýsingar verða gefnar út í næstu viku,“ segir í tilkynningunni.

Heimsleikarnir áttu að hefjast 29. júlí í Madison í Wisconsin-fylki en þeir hafa þegar verið færðir til Aromas í Kaliforníu. Fjölmargir keppendur sem höfðu náð lágmörkum inn á leikana geta ekki tekið þátt vegna fjöldatakmarkana en aðeins 30 keppendur geta tekið þátt í karlaflokki annars vegar og kvennaflokki hins vegar.

Leikarnir fara fram í skugga vandræða innan íþróttarinnar en Greg Glassman, forystumaður Crossfit, hefur sætt mikilli gagnrýni vegna einræðistilburða auk rasískra ummæla sinna á samfélagsmiðlum. Crossfit hefur lofað bættum starfsháttum í kjölfar gagnrýninnar og Glassman hefur stigið til hliðar sem framkvæmdastjóri Crossfit. Hann er þó enn eigandi samsteypunnar.

Fyrrum heimsmeistarinn Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur átt einna háværustu gagnrýnisröddina en hún tilkynnti um helgina að hún muni ekki taka þátt á leikunum í ár, frekar en neinum öðrum leikum, fyrr en vinnubrögð Crossfit batna.

Íþróttavöruframleiðandinn Reebok hefur verið helsti styrktaraðili leikanna undanfarin ár en hefur tilkynnt að leikarnir muni bera nafn fyrirtækisins í síðasta sinn í ár.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Katrín Tanja hætt í Crossfit

Íþróttir

„Ekkert sem kemur í veg fyrir að hann birtist aftur“

Íþróttir

Glassman hættir hjá Crossfit

Íþróttir

„Fólk er reitt og sárt“