Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hægt að fræðast um Borgarlínuna á nýrri sýningu

18.06.2020 - 22:00
Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson / RÚV
Hönnun borgarlínunnar og legu hennar eru gerð skil á gagnvirkri sýningu á Hönnunarmars í Ráðhúsi Reykjavíkur næstu sjö daga.

Sýningin Næsta stopp er í Tjarnarsalnum og sýnir skipulag nýs samgöngunets á höfuðborgarsvæðinu sem verður samspil nýrrar borgarlínu og strætókerfisins. Hún verður byggð í áföngum til 2031 og leggja þarf nýjar brýr og breyta götum. 

Edda Ívarsdóttir borgahönnuður hjá Verkefnastofu um Borgarlínu segir að á sýningunni upplifi gestir þá tíðni sem borgarlínuvagnarnir koma á stoppistöðvarnar því á sýningaveggjum sjáist fólk á biðstöð en síðan heyrist hljóð í vagninum á sjö mínútna fresti og fólkið fari inn í hann. 

Fyrsti áfanginn verður 13 kílómetra leið og á að verða tilbúinn 2023. Hann fer fram Hamraborg í Kópavogi um Kársnesið yfir nýja Fossvogsbrú í gegnum HR upp að Hlíðarenda og Landspítala og HÍ og þaðan niður í miðborgina þá upp að Hlemmi og síðan upp Suðurlandsbraut og upp á Ártúnshöfða.

Eru öll svæði á höfuðborgarsvæðinu sem geta nýtt sér þetta?

„Já, það er þannig að með nýju leiðakerfi Strætó, þá tengjast þær leiðir, ellefu leiðir af höfuðborgarsvæðinu tengjast inn á sérrýmin að hluta til,“ segir Edda.

Þann 24. júní verða kynnt úrslit hönnunarsamkeppni um götugögn borgarlínu þ.e. húsgögn og slíkt á stoppistöðvum. Það verður síðasti sýningardagurinn í Ráðhúsinu en svo verður hluti hennar sýndur í Kópavogi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Edda Ívarsdóttir.