Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Noregur og Írland í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

17.06.2020 - 23:55
epa06215719 Security Council members vote unanimously in the affirmative on the resolution during a Security Council Meeting on United Nations peacekeeping operations, during the 2nd day of the General Debate of the 72nd United Nations General Assembly at
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA
Fjögur ríki hlutu í dag aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2021 og 2022. Fimmta sætinu var ekki úthlutað í dag þar sem Afríkuríkjunum Djibútí og Kenía tókst hvorugu að afla sér stuðnings tveggja þriðju aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Aftur verður kosið um hvort ríkið hlýtur aðild á morgun. 

Kenía hlaut fleiri atkvæði en Djibútí, eða 113 gegn 78. Kenía nýtur stuðnings Afríkusambandsins, en stjórnvöld í Djibútí segja ríkið eiga að fá sætið vegna setu Naíróbís í ráðinu áður. 

U2 hafði betur gegn Celine Dion

Noregur og Írland hlutu sæti í Öryggisráðinu, auk Indlands og Mexíkó. Indland sótti eitt um aðild meðal ríkja í Asíu og á Kyrrahafi, og Mexíkó var einnig eitt í framboði á sínu svæði. Kanada laut í lægra haldi gegn Írlandi og Noregi meðal vestrænna ríkja.

Kanada hefur lagt mikið í sölurnar undanfarin ár til þess að komast í öryggisráðið. Ríkið tapaði einnig árið 2010 þegar Allsherjarþingið valdi Portúgal frekar. Að sögn AFP fréttastofunnar var Celine Dion dregin á svið í New York borg til þess að syngja framboð Kanada í hjörtu aðildarríkja, en útspil Íra virðist hafa fallið betur í kramið þar sem fulltrúum var boðið á tónleika með U2. 

Fimmtán ríki sitja í Öryggisráðinu í einu. Tíu sæti flakka á milli aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, en Bretland, Kína, Frakkland, Rússland og Bandaríkin eiga fast sæti í ráðinu, og hafa auk þess neitunarvald í ráðinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV