Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hoppukastalar, bómullarsykur og biðraðir

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Hoppukastalar, kandífloss, biðraðir, sápukúlur, skemmtiatriði og tónlist. Allt þetta var í boði í dag á þjóðhátíðardaginn, mismikið þó eftir sveitarfélögum.  Langar biðraðir mynduðust við leiktæki í blíðunni í Kópavogi en sum sveitarfélög slepptu næstum alveg hátíðahöldum. 

Formleg hátíðardagskrá stjórnvalda hófst á Austurvelli klukkan ellefu, rétt eftir að lögregla stöðvaði ræðuhöld listamannsins Snorra Ásmundssonar í gervi fjallkonu. Að venju heiðraði forseti Íslands minningu Jóns Sigurðssonar. En það var ekki veirufrí stund á Austurvelli.

„Stjórnvöld munu fylgjast grannt með hvernig til tekst og bregðast hratt við með afgerandi hætti, gerist þess þörf. Við verðum áfram að gæta ítrustu varfærni, enda geisar faraldurinn enn víða um heim og gæti blossað upp aftur hér,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu. 

Þetta hefur verið frekar óvenjulegur 17. júní. Það er svo hlýtt að það er hægt að vera bara á peysunni. Það eru frekar fáir í miðbænum en girðingin, hún er alla vega alltaf á sínum stað. 

„Það er bara handfylli af fólki. Það er ágætt þá sér maður þarna yfir,“ segir Eiríkur Ágúst Guðjónsson, sem var á Austurvelli. 

„Þetta er fámennt og góðmennt. Er þetta ekki bara allt í góðu?,“ spyr Elín Jónsdóttir. Hún skartaði átjándu aldar peysufötum sem hún saumaði sjálf. 

Þið hafið ekkert viljað bara sleppa 17. júní og fara út úr bænum eða eitthvað?

„Það kom til greina, að skreppa á Þingvöll í smá picknick,“ segir Björg Juto. Hún var á Austurvelli með fjölskyldunni. 

„Það er auðvitað fámennt en mér sýnist vera mjög góðmennt á Vellinum. Veðrið alveg yndislegt. Þannig að það er ekki hægt að segja annað en að stemmingin sé þjóðhátíðarleg,“ segir Rúnar Vilhjálmsson. Hann var með tveimur afadrengjum sem biðu spenntir eftir því að heyra í pabba sínum spila í lúðrasveitinni. 

Þá var stefnan tekin á Hólavallagarð og Jón blessaður fékk meira af blómum.

Hvernig gengur nú að skipuleggja hátíðahöld á tímum sóttvarna?

Maður þarf að alla vega að hugsa dálítið út fyrir boxið. Maður þurfti að taka einn dag í einu. Einn daginn var sagt: nei, við getum ekki haldið neitt. Af því að við vissum ekki hve margir mættu koma saman. En sem betur fer mega alla vega 500 manns koma saman,“ segir Aðalheiður Santos Sveinsdóttir, viðburðarstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Þeir sem keyptu sér útsýnisflug sáu tóman Hljómskálagarð en það var öðru vísi umhorfs í Kópavogi.

Sysktinin Ljósberg Helga Daníelsdóttir og Matthías Haukur Daníelsson mættu hjólandi í Kársnesskóla þar sem Lína langsokkur skemmti. 

Kópavogsbær bauð upp á hoppukastala, bómullarsykur og biðraðir á fjórum stöðum, til að mynda í Fagralundi. Biðraðir mynduðust í grillaðar pylsur. 

Það er enginn COVID-ótti hérna?

„Jú bæði og bara,“ segir Ásta Kristín Guðmundsdóttir.

Það eru dálítið margir hérna?

„Já, en þetta er náttúrulega dreift um allan bæinn. Þannig að þetta er kannski bara skrýtinn 17. júní að vera ekki á Rútstúni eins og venjulega,“ segir Ásta.

Karen Iljan gæddi sér á bómullarsykri með jarðaberjabragði. Hún hafði líka fengið andlitsmálun.

Jan Janek beið ásamt fleirum eftir því að komast í hoppukastalann. 

Matthías Már Kristjánsson gætti þess að allt færi vel fram í hoppukastölunum. 

„Spritta krakkana áður en þau fara inn í hoppukastalann. Það er starfsmaður í röðinni að spritta hvern krakka,“ segir Matthías.

„Þetta er bara  frábært. Það er líka bara geggjað að þessu sé skipt upp í svona marga hluti. Það er bara góð stemming,“ segir Andri Ólafsson sem flatmagaði á teppi. 

En það var ekki afslöppun hjá vöskum hópi kvenna sem lauk nokkurra daga göngu frá Gullfossi til Reykjavíkur líkt og náttúruunnandinn Sigríður í Brattholti gekk forðum.

Akureyringar fögnuðu einnig með hátíðarbrag. Á Egilsstöðum blésu börn sápukúlur úr kirkjuturninum. Ísfirðingar líkt og aðrir þurftu að þola látlausari hátíðahöld. „Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðjast formlega afsökunar á því að stöðva karamelluregnið í ár,“ sagði Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum.