Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir tillögur Hafrannsóknastofnunar ákveðin vonbrigði

16.06.2020 - 19:53
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hafrannsóknastofnun leggur til sex prósenta lækkun á aflamarki þorsks. Í fyrsta sinn í ellefu ár er lagt til að dregið verði úr þorskveiðum. Sjávarútvegsráðherra segir þetta vonbrigði og athuga verði hver áhrifin eru af því að bæta við árgöngum inn í vísitöluna áður en hann tekur ákvörðun um aflamark.

Hafrannsóknastofnun kynnti í morgun úttekt á ástandi helstu nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Almennt leggur stofnunin til að dregið verði úr veiðum. Lagt er til að dregið verði úr þorskveiðum um sex prósent.

„Í flestum tegundum stafar það af minnkandi nýliðun á undanförnum árum, sem við höfum ekki fulla skýringu á. Í þorskinum er það fyrst og fremst lækkun í vísitölum og vísbendingar um að veiðiálag í eldri fisk hafi aukist mikið,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnssjávarlífríkissviðs hjá Hafnrannsóknastofnun.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir niðurstöður stofnunarinnar ekki vera mikið áhyggjuefni. „Heilt yfir eru ekki stórar áhyggjur þarna. Auðvitað eru alltaf vonbrigði að sjá þegar ráðgjöf fer niður, sérstaklega í þorski, sex prósenta lækkun. Ég held hins vegar að þetta sé ekki stórt áhyggjuefni. Við eigum alltaf að búast við því að sveiflur séu í ráðgjöf hvað fiskistofna varðar,“ segir Heiðrún.

„Ég veit nú ekki hvernig fiskveiðiárið sem nú er að líða mun lokast. Það hafa komið upp áföll á því ári. Í byrjun árs var tíðarfar mjög slæmt. Svo brestur á COVID. Þannig að eitthvað verður hugsanlega geymt til næsta fiskveiðiárs. Þannig að það er kannski of snemmt að segja hver raunveruleg verðmæti verða þegar upp er staðið en sex prósenta lækkun hlýtur jú alltaf að þýða einhverja lækkun í verðmætum,“ segir hún.

Ráðlagt aflamark ýsu hækkar um níu prósent frá yfirstandandi fiskveiðiári og ráðlagt aflamark grálúðu um tíu prósent. Aflamark fyrir síld hækki um þrjú prósent. Lagt er til að aflamark ufsa verði tveimur prósentum minna og að dregið verði gullkarfaveiðum um níu prósent. Mesta ráðlagða lækkunin er á aflamarki keilu, um 41 prósent. Hlýri er þó sú tegund sem Hafrannsóknastofnun hefur mestar áhyggjur af. Stofnunin telur að hlýrastofninn sé kominn niður fyrir varúðarmörk, lækka þurfi aflamark um tólf prósent. Þá eigi að heimila að sleppa hlýra.

„Stóru stofnarnir eins og þorskur, ýsa, ufsi, karfi, og núna síld, sem sýnir batamerki, eru í mjög góðu standi. Í rauninni er lækkunin í þorski núna mjög lítil miðað við það sem er í mörgum öðrum stofnum,“ segir Guðmundur.

Tillögur Hafró ákveðin vonbrigði

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir tillögur Hafrannsóknastofnunar ákveðin vonbrigði. „Auðvitað eru ljósir punktar innan um í þessu en það er umhugsunar virði og í raun hollt fyrir okkur að hugleiða hvernig á þessu stendur,“ segir Kristján.

„Ég minni á það að fyrir rétt rúmum tíu árum var ráðgjöfin frá Hafrannsóknastofnun í þorski 150 þúsund tonn. Við erum að tala um að ráðgjöfin í ár sé 256 þúsund tonn. Þessi uppbygging gengur svona hægt og bítandi, ekki í stórum stökkum. Allir vildu sjá þetta ganga hraðar,“ segir hann.

Kristján segir ljóst að nú þurfi greina þetta og sjá hvernig á þessu stendur. Aðspurður hvort hann ætli að fara eftir ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar segist hann ætla að fara betur yfir tillögurnar og fá skýrari svör við ákveðnum spurningum áður en hann tekur ákvörðun um aflamark. Til að mynda þurfi að vera á hreinu hver áhrifin af því að bæta við árgöngum inn í vísitöluna séu.